Síðasta sýningarhelgi á Efnaskiptum
Sumarsýningu Listasafns Reykjanesbæjar, sýningunni Efnaskipti, lýkur sunnudaginn 15. ágúst n.k. Sýningin var framlag Listasafns Reykjanesbæjar til Listahátíðar 2010 og er samvinnuverkefni safnsins og fimm myndlistarkvenna: Önnu Líndal, Guðrúnar Gunnarsdóttur, Hildar Bjarnadóttur, Hrafnhildar Arnardóttur og Rósu Sigrúnar Jónsdóttur Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson. Sýningin er sjálfstætt framhald sýningarinnar Þríviður þar sem unnið var með tréð sem efnivið í listinni en nú er látið reyna á þanþol þráðarins og notkunar textílsins í listinni. Sýningin hefur hlotið frábæra dóma og fjöldi fólks lagt leið sína á safnið. Sýningarsalur safnsins er í Duushúsum og þar er opið virka daga frá kl. 11.00-17.00 og um helgar er opið frá kl. 13.00-17.00.