Síðasta sýningahelgi í Duushúsum
Sýningu Eiríks Smith og kvennanna í Baðstofunni í Listasafni Reykjanesbæjar lýkur sunnudaginn 16. október.
Á sýningunni, sem opnuð var á Ljósanótt má sjá tæplega 50 verk eftir Eirík og fimm fyrrverandi nemendur hans í Baðstofunni, þær Ástu Árnadóttur, Ástu Pálsdóttur, Sigríði Rósinkarsdóttur, Soffíu Þorkelsdóttur og Þórunni Guðmundsdóttur.
Eiríkur sýnir olíuverk en listakonurnar vatnslitamyndir og myndir unnar með blandaðri tækni á pappír.
Baðstofan er rúmlega 30 ára gamalt menningarfélag í Reykjanesbæ en Eiríkur kenndi hópnum myndlist í rúman áratug og valdi verk eftir þessa fyrrverandi nemendur til að sýna með sér.
Þess má geta að þessi hópur fékk Menningarverðlaun Reykjanesbæjar, Súluna, árið 2002.
Góð aðsókn hefur verið á sýninguna í Listasafni Reykjanesbæjar og verkin hafa fengið góða dóma.
Í tilefni sýningarinnar hefur Eiríkur Smith gefið Listasafni Reykjanesbæjar að gjöf stórt olíumálverk og nemendur hans sömuleiðis og eru þeim færðar þakkir fyrir það.
Sýningarsalur Listasafnsins í Duushúsum er opinn alla daga frá kl. 13:00 - 17:30.