Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Miðvikudagur 12. janúar 2000 kl. 15:37

SEX MILLJÓNAMÆRINGAR Á SUÐURNESJUM

Umboð fyrir Happdrætti Háskóla Íslands á Suðurnesjum á sér nokkuð langa sögu. Þeir bræður Snorri og Tómas Tómassynir voru með umboðið lengi vel í versluninni Hagafell við Hafnargötu 79. Jón Tómasson tók síðan við þegar hann hætti sem stöðvarstjóri Pósts og síma. Næstur í röðinni var Helgi Hólm sem á seinni árum flutti sig um set neðar á Hafnargötuna, í hús númer 31. Það var svo um áramótin 1994 sem umboðið flutti sig yfir götuna á Hafnargötu 36, og er þar í góðum félagsskap happdrættis SÍBS og Sjóvá-Almennra trygginga. Þar sjá umboðsmennirnir, Geir Reynisson og Eygló eiginkona hans, um að allt gangi snurðulaust fyrir sig. Starfsfólk með reynslu Umboðið hefur verið afar heppið með starfsfólk og skipta persónuleg kynni þar miklu máli. Sama starfsfólk hefur séð um reksturinn mörg s.l. ár og það hefur komið sér vel að geta treyst á þekkingu þess og reynslu. Eygló segir að umboðið á Hafnargötunni hafi lagt áherslu á góða þjónustu í takt við nýja tíma, s.s. innlegg á reikninga beint í gegn um heimabanka, og svo má nefna heimasíðu Happdrættisins þar sem allar upplýsingar um vinninga ofl.er að finna. 22 milljónir í vinninga Á síðasta ári greiddi umboðið út rúmar 22 milljónir í vinninga og þar af 6 milljón krónu vinninga til viðskiptavina sinna. „Ef fólk vitjar ekki vinninga sinna innan þriggja mánaða sendir umboðið út bréf til að láta vita af vinningnum. Þetta á við um lægri vinningana, en það er alltaf reynt að hringja til allra sem vinna stórar upphæðir. Dráttardagur í HÍ er alltaf 10. hvers mánaðar nema hann beri upp á helgi, þá færist dráttardagurinn fram á næsta þriðjudag á eftir“, segir Eygló. Allir þeir sem eru búnir að endurnýja á réttum tíma eru með í seinni útdrættinum sem er hálfum mánuði síðar og kallast heiti potturinn. „Það er alltaf sú hætta fyrir hendi að fólk gleymi að endurnýja og sé þá ekki með þegar dregið er. Til að forðast þetta er mjög gott að láta draga endurnýjunina af greiðslukortum eða láta greiðsluþjónustu bankanna taka þetta í sínar hendur. Þá þarf fólk ekkert að gera nema taka við vinningunum þegar þeir koma“, segir Eygló. Mennt er máttur Hver einfaldur miði kostar 800 kr. en trompmiði kostar 4000 kr. Hægt er að eiga 4 einfalda miða í hverju númeri auk trompsins og vera þá með nífaldan miða og greiða þá nífalt gjald, þ.e. 9x800 alls 7200 kr. „Vinningarnir verða þá nífaldir og geta verið ansi myndarlegir í krónum talið. Með miðakaupunum er verið að styrkja Háskóla Íslands og það er mjög gott mál. Allar húsbyggingar og endurnýjanir ásamt viðhaldi húsnæðis er unnið fyrir þessa peninga. Ef mennt var máttur á síðustu öld þá er hún nauðsyn á þessari sem er að byrja“, segir Eygló að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024