Sex ára upprennandi skákmeistari
Vignir Vatnar er 6 ára nemandi í Myllubakkaskóla og upprennandi skákmeistari. Í morgun tefldi hann fjöltefli við eldri bekkinga skólans og vann sex skákir af sjö.
Ef svo fer fram sem horfir á hann eflaust eftir að skipa sér framarlega í röð stórmeistaranna. Hann lærði mannganginn aðeins fjögurra ára og byrjaði að tefla fyrir alvöru í febrúar á þessu ári.
Vignir teflir með skákfélögunum á Reykjavíkursvæðinu. Sökum ungs aldurs teflir hann í unglingaflokki á móti mun eldri krökkum og hefur í fullu tré við þá.
Vigni er skákmennskan reyndar í blóð borin því faðir hans og móðurbróðir hafa verið mikilvirkir skákmenn.
Fjölteflið í morgun var í tilefni af þemadögum sem lauk í Myllubakkaskóla í morgun en þar sýndu nemendur afrakstur þemavinnu sinnar síðustu daga. Að þessu sinni voru jólin til umfjöllunar. Nemendur bjuggu m.a. til falleg piparkökuhús, heimagerðan brjóstsykur, steyptu kerti og margt fleira.
Fjölteflið var líka ágætis undirbúningur fyrir skákmót sem Vignir tekur þátt í um helgina.
VFmyndir/elg.