Setti óvænt Íslandsmet í fyrstu lyftu á fyrsta mótinu
Þegar Katla Björk Ketilsdóttir mætti á sitt fyrsta mót í ólympískum lyftingum í febrúar síðastliðnum hafði hún sett sér það markmið að lyfta rétt þannig að allar lyfturnar yrðu dæmdar gildar. Það tókst henni og gott betur því að strax í fyrstu lyftunum setti hún Íslandsmet í báðum greinum ólympískra lyftinga, jafnhendingu og snörun. Síðan þá er Katla búin að bæta metin þrjátíu sinnum, nú síðast á Haustmóti Lyftingasambands Íslands, 16. september síðastliðinn. Katla er aðeins 16 ára gömul og á Íslandsmet í greinunum tveimur bæði í flokki 17 ára og yngri og 20 ára og yngri í þyngdarflokknum -63 kg. Hún segir það skemmtilegasta við lyftingarnar að bæta árangurinn. „Maður er alltaf með markmið og það er varla hægt að lýsa tilfinningunni þegar maður nær þeim,“ segir hún.
Saknar fimleikanna
Katla æfði fimleika frá fjögurra ára aldri en er nú nýlega hætt til að einbeita sér að Crossfit og lyftingum. „Ég ætlaði mér aldrei í Crossfit en svo lét frænka mín mig vita að það væri að byrja unglinganámskeið í Crossfit og hvatti mig til að mæta. Ég hugsaði með mér að það væri sniðugt að mæta til að styrkja mig og verða betri í fimleikum,“ segir Katla. Það gekk eftir og fann hún mun á styrknum en tók svo þá erfiðu ákvörðun að hætta í fimleikunum. „Það var erfið og stór breyting að hætta í fimleikum því hafði æft svo lengi en ég ákvað að velja lyftingarnar því ég sé fyrir mér meiri möguleika á að skapa mér atvinnuíþróttaferil þar.“
Ólympískar lyftingar eru meðal æfinga Crossfit iðkenda og æfir Katla af kappi hjá Crossfit Suðurnes. Hún segir erfitt að segja til um hve margar æfingarnar í hverri viku eru en þær eru margar. Síðasta sumar æfði hún tvisvar sinnum á dag. Katla lauk 10. bekk úr Holtaskóla síðasta vor og var ein þeirra sex sem skipuðu sigurlið skólans í Skólahreysti. Núna stundar hún nám við Fjölbrautaskólann í Garðabæ og því getur verið svolítið púsluspil að raða æfingum, skóla, heimanámi og öðru inn í dagskránna dag hvern.
Stefnir hátt
Næsta mót hjá Kötlu er Norðurlandamótið í Ólympískum lyftingum fyrir 17 ára og yngri sem fer fram hér á landi í lok október. Katla hefur líka keppt í Crossfit og á Crossfit Open, undankeppni heimsleikanna í febrúar á þessu ári, lenti hún í 2. sæti í flokki 14 til 15 ára í Evrópu og í 24. sæti í aldursflokknum í heiminum. Markmiðið hjá Kötlu er að komast á heimsleikana innan tveggja ára og skapa sér feril sem Crossfit íþróttamaður. Það verður því spennandi að fylgjast með árangri Kötlu næstu árin.
Góður félagi og fyrirmyndar íþróttamaður
Ingi Gunnar Ólafsson er einn þjálfara Kötlu og segir hann bakgrunninn úr fimleikum nýtast henni vel í Crossfit og lyftingum. „Á mótum er Katla góður félagi og alltaf kurteis. Hún er fyrirmyndar íþróttamaður sem mætir vel á æfingar, er þrautseig og alltaf með hugann á réttum stað,“ segir hann. Ingi segir árangurinn á árinu einstakan, að setja Íslandsmet á hverju móti, þrátt fyrir að vera tiltölulega nýbyrjuð að æfa lyftingar.
Katla að jafnhenda á æfingu. Íslandsmetið sem hún setti í greininni á dögunum er 82 kg. VF-mynd/dagnyhulda