Setja peninga í brauð
Jólahefðir frá Serbíu
Gindvíkingurinn Ivan Jugovic tilheyrir rétttrúnaðarkirkjunni en fjölskyldan hans kom hingað til lands frá Serbíu. Þau halda ekki þessi dæmigerðu íslensku jól heldur halda þau í hefðirnar frá heimalandinu. Fjölskyldan fluttist til Íslands árið 2000 þegar Ivan var fjögurra ára gamall. Þegar íslensku jólin standa sem hæst þá sefur Ivan yfirleitt út og spilar FIFA tölvuleikinn. Áramótin hjá Ivan eru svo með sama sniði og tíðkast á Íslandi.
„Á aðfangadag sem er þann 6. janúar borðum við fisk, salat, kartöflur og annað meðlæti vegna þess að við föstum. Þegar við föstum þá borðum við ekki neina afurðir úr dýrum. Síðan er bakað kringlótt brauð og settur peningur inn í brauðið, síðan safnast fjölskyldan í kringum brauðið og það er brotið. Sá sem fær peninginn er talinn eiga gott ár framundan. Á jólunum förum við í rétttrúnaðarkirkjuna til Reykjavíkur í messu, síðan förum við heim í forrétt sem er yfirleitt súpa, síðan er heilgrillað svín og/eða lamb alltaf í aðalrétt, sem yfirleitt er þá hamborgarahryggur. Við erum svo með salat og meðlæti með því. Í eftirrétt eru yfirleitt tertur, smákökur og margt fleira.“
Jólin snúast ekki um það efnislega
„Yfirleitt er fastað fimm vikum fyrir jól en það er val hvers og eins hversu lengi þá langar að fasta. Hinsvegar er nauðsynlegt að fasta á aðfangadag. Jólaskreytingar og bakstur eiga sér stað til að fagna komu áramótanna. Allt tengt við jólin hjá okkur kemur skrauti, bakstri eða jólamörkuðum lítið við. Jólin er hátíð kærleiks og friðar og þakklætis. Þau snúast voða lítið um efnislegu hlutina eins og gerist víða annars staðar.“