Séra Sigfús Ingvason maður ársins 1999
„Hvað segirðu?“ (hljóð í smástund), „maður ársins? Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja, nema þakka kærlega fyrir. Þetta er mikill heiður“, sagði Séra Sigfús Ingavason, sóknarprestur í Keflavík þegar ritstjóri Víkurfrétta hringdi í hann til Akureyrar á dögunum til að tilkynna honum útnefninguna. Sigfús var í heimsókn hjá foreldrum sínum fyrir norðan.Sigfús er vel að þessu kominn. Kirkjustarf í Keflavík hefur verið með miklum blóma á undanförnum árum og séra Sigfús á stóran þátt í því. Hann hefur vakið athygli fyrir vasklega framgöngu í kirkjustarfinu og hressilegt viðmót. Sigfús er borinn og barnfæddur Akureyringur og bjó þar til 24 ára aldurs. Hann kom víða við áður en hann tók þá ákvörðun að verða prestur um tíma leit út fyrir að hann yrði pípulagningamaður. Sigfús komst hins vegar fljótlega að því að hann hefði tíu þumalfingur og lagði þá iðnnámið á hilluna. Hann innritaði sig í guðfræðideild Háskóla Íslands og tók við embætti í Keflavík haustið árið 1993.Sigfús segir að samstarf sitt við það fólk sem unnið hefur að málefnum kirkjunnar, hafi gengið glimrandi vel og að þau séu alltaf að þróa starfið. „Við höfum verið að byrja með alls konar námskeið, t.d. biblíulestrarnámskeið og bænanámskeið. Hópurinn sem byrjaði að myndast í kringum þetta starf var upphafið að Alfa námskeiðunum. Þetta gerðist því ekki á einum degi“, segir Sigfús. Alfa námskeiðin njóta vaxandi vinsælda og því er kannski ekki úr vegi að útskýra fyrir þeim, sem ekki til þekkja, í hverju þau felast. „Námskeiðið snýst um að útskýra grundvallaratriði kristinnar trúar á skemmtilegan hátt. Það hefst með borðhaldi klukkan sjö og eftir það er tónlist. Klukkan átta hefst fyrirlestur, síðan er fólki skipt í umræðuhópa og að lokum fara allir saman á helgistund í kirkjunni. Eina helgi fer hópurinn saman til áframhaldandi fræðslu og samfélags“, segir Sigfús og bætir við að honum finnist námskeiðin hafa skilað sér inn í kirkjustarfið. „Fólk fer að rækta trú sína og ég tel að fólk sé betur undirbúið til að takast á við hið daglega líf. Þessi námskeið eru vaxtabroddur í kirkjustarfinu“, segir Sigfús.Á þessu ári verða mikil hátíðahöld á Íslandi og tilefnið er þúsund ára afmæli kristnitöku. Í Reykjanesbæ verður mikið um dýrðir. 2. apríl verða hátíðahöld í Reykjaneshöllinni og einnig verður sérstök hátíð í Keflavíkurkirkju. „Við ætlum að bjóða skólunum til okkar svo það verður líf og fjör. Kristnihátíðin er að mínu mati ekki bara einhver hátíð heldur eitthvað sem við eigum að halda áfram“, segir Sigfús.Án fólks er engin kirkjaSigfús segir að bæði hann og séra Ólafur Oddur, sóknarprestur í Keflavík, séu mjög meðvitaðirum að kirkjan er fólkið og án fólks sé engin kirkja. „Við Ólafur Oddur ætlum okkur ekki að leika neinn einleik og við erum mjög samstíga í að virkja fólkið meira. Við gerum okkur einnig grein fyrir því að við getum ekki alltaf verið að biðja fólk að koma í kirkju ef við förum ekki til fólksins“, segir Sigfús. Hann segist sjá framtíð kirkjunnar bjarta með nýju safnaðarheimili, fleiri tækifærum og meiri starfsemi. „Við höfum lagt okkur fram við byggja upp gott starf og höfum haft mikið af hæfileikaríkum einstaklingum í kringum okkur og á þeim hefur þetta byggst“, segir Sigfús að lokum.Ítarlegt viðtal við séra Sigfús í Tímariti Víkurfrétta í dag.