Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sér um að sjónvarpsupptökur frá Ólympíuleikunum gangi fullkomlega upp
Elín Ólafsdóttir.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 17. ágúst 2024 kl. 07:13

Sér um að sjónvarpsupptökur frá Ólympíuleikunum gangi fullkomlega upp

„Mitt starf snýst um að allir sem koma að sjónvarpsupptökum geti sinnt sínu starfi sem best,“ segir Njarðvíkingurinn Elín Ólafsdóttir en hún hefur verið í vinnu fyrir alþjóðlega Ólympíusambandið í fimmtán ár. Hún hefur verið búsett á Spáni í tæp tuttugu ár, er gift Spánverja og á með honum fjögur börn. Hún hefur verið í París síðan í júní og verður þar fram í september með viku fríi á milli Ólympíuleikanna sem nú er nýlokið, og Ólympíuleika fatlaðra sem taka alltaf við í kjölfarið.

Ella eins og hún er kölluð, vinnur sem verkefnastýra við að sjá um allt sem viðkemur „broadcasting“ eða sjónvarpsútsendingum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Mitt starf snýst um að láta allt ganga upp sem viðkemur sjónvarpsupptökunum, allt frá því að redda öllum gistingu, fæði, fari á milli staða og í raun allt milli himins og jarðar. Við erum 300 sem vinnum allan ársins hring hjá fyrirtækinu en í París eru um átta þúsund starfsmenn og það þarf að koma þeim öllum fyrir. Inni í þessari tölu er fólk úr ótal starfsstéttum, sjónvarpsupptökufólk, kokkar, túlkar, hljóðverkfræðingar og svona gæti ég lengi haldið áfram. Allir þessir aðilar þurfa að geta sinnt sínu starfi og mitt starf snýst um að auðvelda þeim það.

„Fyrstu Ólympíuleikar voru vetrarleikarnir í Vancouver árið 2010 og ég hef komið á alla leika sem hafa verið haldnir síðan. Ég dvel um tvo til fjóra mánuði á hverjum stað á meðan leikunum“

Hvað þarf manneskja að hafa til brunns að bera til að komast í þetta spennandi starf?

„Ég lærði ferðamálafræði og svo innanhússarkitekt en minn styrkur liggur í því að geta talað reiprennandi fjögur tungumál. Ég sótti einfaldlega um þetta starf á sínum tíma því mér fannst þetta spennandi og hreppti hnossið, byrjaði sem tækniteiknari í verkfræðideild en ég hef alltaf haft áhuga á viðburðastjórnun og komst í starfið sem ég er í í dag. Þetta er búinn að vera mjög skemmtilegur tími og ég hef komið til ótal landa, mínir fyrstu Ólympíuleikar voru vetrarleikarnir í Vancouver árið 2010 og ég hef komið á alla leika sem hafa verið haldnir síðan. Ég dvel um tvo til fjóra mánuði á hverjum stað á meðan leikunum stendur og ég held að mér sé óhætt að segja að vinnan mín sé fjölbreytt, það koma upp ótal mál sem þarf að leysa og ég nýt mín til hins ýtrasta í þessu starfi,“ segir Ella.

Hvernig nær Elín að halda tengslum við Reykjanesbæ og Ísland?

„Ég reyni að koma sem oftast heim, einu sinni á ári hið minnsta, ég er alltaf með heimþrá í íslenska loftið, kyrrðina og auðvitað samveru með fjölskyldu og vinum sem ég sakna mikið. Mér finnst mjög mikilvægt að börnin mín hafi sterka tengingu við Ísland og meðal annars var ein af dætrum mínum eina önn í 4. bekk í Njarðvíkurskóla og bjó á meðan hjá ömmu sinni og afa. Henni var mjög vel tekið í Njarðvíkurskóla og vildi hún helst vera lengur. Hún er enn að tala um hversu góður skólamaturinn hefði verið. Svo erum við dugleg að fá heimsóknir frá Íslandi til okkar í Madríd. Rætur okkar eru nokkuð kyrfilega fastar á Spáni svo ég á ekki von á öðru en við munum búa þar áfram en þó veit maður auðvitað aldrei,“ sagði Ella að lokum.

Ella með dætrunum Soniu Briet og Noru við Ólympíueldinn.



Elín Ólafsdóttir með Effelturninn í baksýn og í vinnunni að ofan.

Frá vinstri, eiginmaðurinn Jorge, dóttirin Nora og sonurinn Aron, á Roland Garros tennisvellinum í París.