Sér Ísland með stjörnur í augunum
Eftir 17 ár í Danmörku sér Richard Eckard spennandi tækifæri á heimaslóðum
Sandgerðingurinn Richard Henry Eckard hefur verið fjarri heimahögunum næstum hálfa ævina. Hann ákvað að söðla um rétt rúmlega tvítugur og flytja búferlum til Danmerkur ásamt konu sinni og tveimur börnum. Síðan eru liðin sautján ár og börnin orðin fimm. Fjölskyldan er nú flutt á heimaslóðir þar sem Richard fékk spennandi starf sem hótelstjóri hjá Base Hotel á Ásbrú. Eins og margir Suðurnesjamenn á besta aldri sem eru að flytjast aftur á svæðið, sá Richard að hér er að eiga sér stað talsverð uppbygging og nóg er af tækifærum að mati Sandgerðingsins sem hefur starfað í ferðaiðnaðinum í næstum tvo áratugi.
Fjölskyldan fluttist í lítinn bæ utan við Horsens. „Við fórum til Danmerkur til þess að víkka sjóndeildarhringinn. Þetta var eins og að byrja nýtt líf, alveg á núlli. Maður kunni ekki tungumálið eða neitt. Við vorum þó ekki þessir dæmigerðu Íslendingar sem fluttu til litlu Reykjavíkur í Horsens og töluðu liggur við bara Íslensku.“ Fyrst um sinn starfaði Richard á flugvellinum á svæðinu þar sem hann hafði reynslu frá flugafgreiðslunni í Leifstöð. Þetta var reyndar skömmu eftir árásirnar á tvíburaturnana í New York og varð það til þess að sú vinna gekk ekki upp að sögn Richards. Hann fékkst því við hin ýmsu störf sem buðust. Þar á meðal vann hann í móttöku á hóteli á næturvöktum.
Syntu á móti straumnum í kreppunni
Svo fór að Richard hélt sig við hótelgeirann þar sem hann vann sig upp hjá Scandic hótelkeðjunni, sem er stærsta hótelkeðja Norðurlanda með yfir 300 hótel á sínum snærum víða um Evrópu. „Ég fékk vinnu á hóteli og fílaði það í botn. The rest is history,“ segir Richard og hlær. Fyrsta vinnan var á næturvakt en Richard vann sig upp í móttökustjóra. Á vegum keðjunnar fékk Richard tækifæri til þess að mennta sig í hótelfræðum. Hann vildi þó sækja sér frekari menntun og fór að hugsa heim „Við fórum á móti straumnum og fluttum heim til Íslands árið 2008. Seldum húsið í Danmörku og héldum að við værum að fara heim fyrir fullt og allt. Ég fór í Keili og kláraði stúdent og fór í ferðamálafræði í háskólanum.“
Alltaf verið vandamálaleysari
Eftir rúm tvö ár heima bauðst Ásdísi Eckard, konu Richards, vinna aftur í Danmörku sem flugfreyja, en hún hafði starfað á þeim vettvangi. „Ég hafði þá samband við gamlan vinnuveitanda sem var að opna nýtt hótel á Jótlandi. Hann vantaði hjálp og ég fór þangað til starfa sem móttökustjóri. Ég var fenginn til þess að laga hlutina, en ég hef alltaf verið góður vandamálaleysari.
Áður en fjölskyldan hélt heim aftur var Richard orðinn aðstoðarhótelstjóri hjá Scandic Kolding. Richard var byrjaður að leita sér að stöðu sem hótelstjóri í Danmörku þegar starf heima fyrir rak á fjörur hans. „Félagi minn lét mig vita af þessari stöðu þar sem Skúli Mogensen var að opna hótel á Ásbrú. Hvort það væri ekki spurning að koma heim aftur. Mér fannst þetta bara mjög spennandi, að koma á heimaslóðir aftur og taka þátt í einhverju svona spennandi.“
Heima er alltaf heima
Richard hafði fylgst vel með því sem var að gerast á Íslandi. Hann tók auðvitað eftir því að ferðamannastraumurinn var að aukast til landsins og mikill uppgangur að eiga sér stað á Suðurnesjum. En það var ekki eina ástæðan fyrir því að fjölskyldan fluttist heim. „Kostirnir við Ísland eru helst að heima er alltaf heima. Það er frábært að koma heim. Það hefur mikið breyst síðan 2008. Þá var mikil neikvæðni í þjóðfélaginu. Við nutum þess að búa úti. Nutum þess frelsis að búa á meginlandinu þar sem við elskum að ferðast. Allur frítími og aukafé fer nánast í það að ferðast. Það skemmir ekki fyrir að starfa núna hjá manni sem á flugfélag en það veitir okkur möguleika á að ferðast þegar tími gefst til.“
Það var alltaf hugsunin að fara heim, að sögn Richards. Það var bara spurning um hvenær. „Hér er fjölskylda okkar og vinir. Það var alveg erfitt að vera úti með fimm börn. Það gerði líka margt fyrir okkur. Við erum frekar náin fjölskylda einmitt út af því og vinnum vel saman öllsömul. Það hefur gefið okkur og börnunum mikið að hafa búið út í heimi og vera með annað tungumál. Maður veit ekki hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Það er öllum hollt og gott að víkka sjóndeildarhringinn. Við sjáum Ísland með meiri stjörnur í augunum en margir sem hafa verið hér alla tíð.“
Sjö manna fjölskyldan hefur komið sér vel fyrir á Ásbrú þar sem stutt er í vinnuna fyrir Richard, enda þarf hann oft að vera til taks á öllum tímum sólarhringsins. Richard sér mörg tækifæri í ferðamennskunni á Suðurnesjum og hlakkar til að byggja upp hótelið. „Ég er ekkert að finna upp hjólið en ég hef ýjað að því að allir vinni saman á svæðinu. Svo við verðum ekki alltaf flugvallarbærinn þar sem ferðamaðurinn lendir og keyrir í gegnum. Við þurfum númer eitt að leggja áherslu á það sem við eigum. Það snýst allt um markaðsetningu.“