Saxófóntónleikar með Tristan Willems
Bandaríkjamaðurinn Tristan Willems á að baki fjölbreyttan feril sem tónlistarmaður. Hann hefur samið og flutt verk fyrir leikhús, verið meðlimur í fjölmörgum hljómsveitum í Bandaríkjunum, samið yfir 200 tónverk, sinnt tónlistarstjórn og verið stjórnandi. Tristan hefur auk þess sinnt tónlistarskólakennslu og starfar nú við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Á efnisskrá tónleikanna er margt ákaflega forvitnilegt og spennandi. Þar mun Tristan leika eigin útsetningar á verkum Pärts og Akimenkos auk þess sem gestir fá að njóta frumflutnings á saxófónverkinu A Letter from Iceland e. Eirík Árna Sigtryggsson sem skrifað var sérstaklega fyrir Tristan. Ekki verður heldur hjá því komist að nefna verkið Þrjú íslensk ljóð e. Frank William Brazinski og Huldu Björgu Víðisdóttur sem m.a. hlaut tilnefningu til Pulitzer verðlaunanna. Með Tristan á tónleikunum koma fram Denver Oldham konsertpíanisti og Hulda Björg Víðisdóttir Mezzo-sópran.
Tónleikarnir verða haldnir í Bíósal Duushúsa fimmtudaginn 19. nóvember kl. 20.00 og er aðgangseyrir kr. 2.000 en kr. 1.000 fyrir eldri borgara og námsmenn.