Mannlíf

Sautján ára stúdent
Aþena Eir með systur sinni, Írisi Rut Jónsdóttur.
Laugardagur 28. maí 2016 kl. 06:00

Sautján ára stúdent

- Ætlar að verða stærðfræðikennari

Aþena Eir Jónsdóttir er aðeins 17 ára gömul og útskrifaðist sem stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja um síðustu helgi. Meðaleinkunn hennar var 8,85 og við útskriftina fékk hún verðlaun fyrir góðan árangur í viðskiptagreinum og félagsfræði. Það er þó engin tilviljun að Aþenu hafi tekist að útskrifast svo ung og með góðar einkunnir því henni finnst mjög gaman í skóla og veit varla hvað hún á af sér að gera þegar hún er ekki í skólanum. „Það er þannig þó svo að það sé nóg að gera hjá mér. Það verður skrítið í sumar vera ekki í neinum skóla,“ segir Aþena sem vinnur í sumar á Hertz bílaleigunni.

Útskriftinni fagnaði Aþena með góðu partýi og fór í mars í útskriftarferðalag með kærastanum, Lárusi Guðmundssyni, til Tenerife, Hollands og Þýskalands.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Sleppti 8. bekk
Grunnskólagöngunni lauk Aþena 15 ára úr Gerðaskóla í Garði en hún sleppti 8. bekk og var því ári á undan jafnöldrunum. Hún stundaði nám við FS í þrjú ár og verður 18 ára í sumar. Þegar hún hóf nám við FS var í boði hraðferðarlína fyrir nemendur sem vildu klára námið á þremur árum. Sú lína er ekki lengur í boði því stúdentsnám almennt er orðið þriggja ára nám. Aþena kveðst eiga auðvelt með að læra og því hafi námið ekki verið strembið. „Eina önnina tók ég 27 einingar en það var ekkert erfitt, ég náði þessu einhvern veginn. Eitt sumarið tók ég svo tvo áfanga svo að ég var með fáar einingar og gat tekið því rólega síðasta árið,“ segir hún. Eins og áður sagði fékk Aþena verðlaun fyrir góðan árangur í viðskiptagreinum og félagsfræði og segir hún þær greinar hafa verið mjög skemmtilegar. „Ég fór nú aðallega í félagsfræði því mér finnst kennarinn, hann Bogi Ragnarsson, svo skemmtilegur að ég ákvað að taka áfanga hjá honum.“

Stærðfræðin í uppáhaldi
Í haust ætlar Aþena að hefja kennaranám við Háskóla Íslands og er stefnan tekin á að verða stærðfræðikennari í framtíðinni. Stærðfræðin hefur lengi verið uppáhalds fag Aþenu og í FS lauk hún 24 einingum í stærðfræði þó svo að hún þyrfti aðeins að ljúka 15 einingum. Aþena ætlar að búa áfram á Suðurnesjum og keyra til Reykjavíkur í skólann með kærastanum sem er líka að hefja háskólanám í haust.

Aþena hefur ekki aðeins verið að sinna náminu undanfarin ár því hún hefur líka verið að æfa og kenna dans hjá Danskompaníi ásamt því að vera í hestamennsku. Fjölskylda Aþenu á 20 hesta og yfir sumarið keppir Aþena í hestaíþróttum svo það er sjaldan auð stund hjá þessum orkumikla dugnaðarforki.