Saumar á sjónum
- Jónína Hansen siglir um heimsins höf með flutningaskipum Eimskips
„Ég hef alltaf verið svolítill strákur í mér og stundum gera samstarfsfélagarnir grín að því að ég gangi kvenlega í vinnugallanum,“ segir Jónína Hansen, stýrimaður og vélstjóri hjá Eimskip, fjögurra barna móðir og amma. Hún ólst upp í Reykjavík flutti til Sandgerðis fyrir nokkrum árum síðan. Jónína hefur verið á sjónum í yfir tíu ár og gegnt stöðu stýrimanns, vélstjóra, háseta og kokks. Æskudraumur Jónínu var að verða sjómaður, eins og pabbi sinn. „Á árum áður sótti ég oft um en fékk aldrei vinnu á sjó. Svo missti maðurinn minn vinnuna sína. Við komumst að þeirri niðurstöðu að annað okkar þyrfti að fara á sjóinn til að bjarga fjárhagnum. Maðurinn minn er svo sjóveikur að það kom ekki annað til greina en að ég færi á sjóinn,“ segir Jónína sem af barnabörnunum og sumum vinnufélögum er kölluð amma Dreki.
Tók soninn með í Stýrimannaskólann
Jónína á fjögur börn og eru þrjú elstu uppkomin og flutt að heima en yngsti sonurinn, Jón Þór Jónsson Hansen er 18 ára. Hann var á leikskólaaldri þegar Jónína byrjaði í námi við Stýrimannaskólann og fór stundum með í skólann. „Í skólanum var hann stundum spurður hvort hann ætlaði að verða vélstjóri eins og mamma en hann var alveg ákveðinn að verða stýrimaður,“ segir Jónína. Hún hefur nú lokið námi í skipstjórn og er langt komin með 4. stig í vélfræði. Jón Þór stundar nú nám í vélstjórn við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og stefnir á sjóinn eins og mamma hans. Jónína er virk í björgunarsveitinni Sigurvon í Sandgerði þegar hún er í landi og er þá hluti af sjóflokknum. Með henni í björgunarsveitarstörfunum eru eiginmaðurinn, Jón Þór Ingólfsson og yngsti sonurinn. „Þeir eru mjög virkir en ég hef minni tíma vegna vinnunnar. Það er gaman af því að sonurinn ætli að leggja sjómennsku fyrir sig eins og ég,“ segir hún. Eldri börnin þrjú, Hlynur Hansen, Heimir Hansen og Perla Sif Hansen hafa öll stundað nám í vélstjórn.
Saumar jólaskraut allt árið
Á milli vakta á sjónum saumar Jónína jólaskraut. Jón Þór, eiginmaður hennar, kemur með jólasokk og sýnir blaðamanni og segir í gríni að hún sé búin að sauma utan um klósettið á heimilinu líka. Jónína saumar jólaskrautið allt árið en tekur sér hvíld frá saumaskapnum í desember. „Þetta byrjaði þannig að frænka mín gaf mér bandarískan sokk til að sauma út. Ég kunni nú ekki við annað en að sauma hann. Síðan þá er ég búin að sauma mikið og jólaskrautið er vinsælt hjá barnabörnunum. Á sjónum fara sumir að hlæja þegar þeir sjá vélstjórann sauma út á milli vakta,“ segir Jónína.
Jónína hefur verið vélstjóri, stýrimaður, háseti og kokkur.
Allir samstarfsmenn Jónínu í gegnum tíðina hafa verið karlmenn með einni undantekningu. Aðspurð hvernig karlarnir hafi tekið henni þegar hún byrjaði fyrst á sjónum segir hún þetta ekki flókið; annað hvort passi fólk inn í hópinn eða ekki og að henni hafi verið vel tekið. „Ég bara svara körlunum ef þeir segja eitthvað sem mér líkar ekki. Það verður að hafa munninn fyrir neðan nefið á sjónum.“
Núna í sumar sigldi Jónína í fyrsta sinn með áhöfn þar sem önnur kona var en það var Kolbrún Matthíasdóttir bryti. Jónína segir það hafa verið skemmtilega tilbreytingu og að ekki hafi skemmt fyrir að Kolbrún sé heimsins besti kokkur og með góða nærveru. „Ég er kannski aðeins karlmannlegri en hún en við eigum handavinnuna sameiginlega. Það gafst þó lítill tími í handavinnu hjá okkur en við gátum spjallað um hana þegar við hittumst í mat.“ Jónína segir sjómennsku ekki eiga við alla, hvort sem um konur eða karla sé að ræða, og að gerðar séu jafn miklar kröfur til líkamlegs styrks hjá kynjunum.
Svaðilför um sjóræningjaslóðir
Á flutningaskipum Eimskips hefur Jónína siglt um heimsins höf, til að mynda til Nýfundnalands, Kanada, Bandaríkjanna og til ýmissa landa í Evrópu. Fyrr í sumar fór hún í ferð til Manilla á Filippseyjum en þangað var verið að selja eitt skipa Eimskips, Selfoss. Leiðin lá meðal annars um svæði í nágrenni Sómalíu þar sem sjóræningjar hafa látið til skarar skríða. Á þeim slóðum voru vopnaðir verðir um borð í Selfossi og allar aðgönguleiðir girtar af með gaddavír. Jónína segir sjóræningjana reyna að líta út eins og fiskimenn og að líklega hafi þau séð til þeirra. Ráðist var á skip á þessum slóðum sólarhring áður og eftir að Selfoss sigldi þar um. „Sjóræningjarnir eru með allan útbúnað til að klifra upp í skipin. Þar taka þeir skipverja í gíslingu og krefjast lausnargjalds af útgerðunum,“ útskýrir Jónína sem var með hníf á sér alla ferðina. Til allrar hamingju þá réðust sjóræningjar ekki á Selfoss. Á leiðinni var komið við í Egyptalandi og sagði lögregla við áhöfnina að Jónína væri í mikilli hættu þar því hún væri kona, henni gæti verið rænt. „Skipverjarnir fóru að skellihlæja og sögðu að þetta yrði líklega eins og í Kardimommubænum, að þeir myndu bara skila mér aftur,“ segir Jónína og hlær.
Hún segir ferðina hafa verið skemmtilega en líka tekið á líkamlega og andlega. „Það er ekki fyrir alla að halda svona langa ferð út enda reynir þetta töluvert á, sérstaklega þegar farið er yfir hættusvæði.“ Hitinn á Rauðahafi, Indlandshafi og Kínahafi var líka mikill, eða allt upp í 51 gráðu og missti Jónína sex kíló í ferðinni vegna hitans.
Í desember sigldi Jónína til Bandaríkjanna og var slæmt veður alla leiðina. Myndina tók Sigurður Örn Guðmundsson í þeirri ferð.
Missti puttann vegna eitrunar á sjónum
Áður en Jónína byrjaði að vinna á flutningaskipum hjá Eimskip var hún á fiskveiðum og þá aðallega á línubátum. Í einum túrnum fékk hún lítið sár á löngutöng vinstri handar. Sárið gréri ekki og í það kom eitrun sem svo barst um allan líkamann. Eftir það var puttinn lamaður og var svo fjarlægður því hann olli Jónínu óþægindum. Ljóst var að eitrunin gæti komið aftur upp ef Jónína myndi halda áfram á fiskveiðum og því ákvað hún að færa sig yfir á flutningaskipin. Hún segir starfið mjög fjölbreytt og skemmtilegt en að það geti að sama skapi stundum verið erfitt. „Maður öðlast mikla reynslu á sjónum og er alltaf að sjá eitthvað nýtt. Svo er allra veðra von. Til dæmis fór skipið nánast á hlið um síðustu jól. Þá vorum við á leiðinni til Bandaríkjanna og veðrið var svakalegt alla leiðina. Ég viðurkenni að á áttunda degi var ég orðinn svolítið þreytt á að sjá ekki til lands. Það var mikil ísing en þetta hafðist allt hjá okkur.“
Fyllist hugarró á sjónum
Ferðirnar geta tekið fimm til tíu vikur og stundum er Jónína á sjó yfir jól og páska. Hún segir að fjarvistir frá fjölskyldunni venjist. „Ég reyni að stilla hugann þannig að ég er bara á sjónum þangað til ég kem í land. Ég hugsa auðvitað mikið heim til fólksins míns en ekki þannig að ég telji niður dagana þangað til ég kem í land. Er þetta ekki kallað að lifa í núinu?“ segir Jónína og brosir. Hún segir það eiga mjög vel við sig að vera á sjónum enda hafi hún aldrei verið sjóveik. „Þetta er virkilega skemmtilegt starf enda félagsskapurinn góður og góður andi um borð. Við getum fíflast með næstum því allt og ég kann vel við það. Helst vil ég vera á sjónum það sem eftir er.“ Jónína fyllist hugarró þegar hún er nálægt sjónum, sama þó að starfið geti verið líkamlega erfitt þá skipti það engu því sjórinn veiti andlega hvíld. Jónína býr við Vallargötu í Sandgerði, stutt frá sjónum. „Ég myndi þó vilja búa nær sjónum og helst af öllu hafa hann alltaf fyrir augunum.“