Sátt saman í Myllubakkaskóla
Forvarnir gegn einelti
Undanfarna daga hafa nemendur og starfsmenn Myllubakkaskóla verið í verkefnavinnu tengdri forvörnum gegn einelti. Nemendur og starfsmenn hafa farið í gegnum sérstakt námsefni sem kemur inn á forvarnir fyrir einelti og er einnig tengt atferlisstefnu skólans sem ber heitið PBS eða, „Stuðningur við jákvæða hegðun.“ Nemendur læra t.d. hvernig bregðast eigi við stríðni og öðru áreiti, hvert þeir eigi að leita ef þeir þurfa að tilkynna slíka hegðun og hver er galdurinn á bak við jákvæð og uppbyggileg samskipti.
Lokahnykkurinn í verkefninu er síðan PBS dagurinn „Saman í sátt“ sem fram fór í gær, 14. nóvember. Á þessum degi hanna nemendur ýmis verk sem eru táknræn fyrir vináttu og jákvæð samskipti og syngja og læra vináttusöngva. Einnig horfa nemendur á forvarnarfyrirlestra og annað efni er tengist forvörnum. Nemendur í 10. bekk lærðu t.a.m. og sungu hástöfum þetta sígilda lag eftir Jóhann G.
Traustur vinur
Enginn veit fyrr en reynir á
hvort vini áttu þá.
Fyrirheit gleymast þá furðu fljótt
þegar fellur á niðdimm nótt.
Já, sagt er að, þegar af könnunni ölið er,
fljótt þá vinurinn fer.
Því segi ég það, ef þú átt vin í raun,
fyrir þína hönd, guði sé laun.
Því stundum verður mönnum á
styrka hönd þeir þurfa þá
þegar lífið, allt í einu, sýnist einskisvert.
Gott er að geta talað við
einhvern sem að skilur þig.
Traustur vinur getur gert kraftaverk
Mér varð á og þungan dóm ég hlaut,
ég villtist af réttri braut.
Því segi ég það, ef þú átt vin í raun
fyrir þína hönd, guði sé laun.
Því stundum verður mönnum á...
Jóhann G. Jóhannsson