Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Sárin gróa fyrir næstu göngu
  • Sárin gróa fyrir næstu göngu
Laugardagur 20. júní 2015 kl. 07:30

Sárin gróa fyrir næstu göngu

Göngugarpurinn Sigvaldi Arnar Lárusson er kominn á leiðarenda til Hofsós og hefur þar með lokið Umhyggjugöngu sinni. Ferðalagið hófst að morgni 05. júní við lögreglustöðina í Reykjanesbæ og lauk níu dögum seinna, laugardaginn 13. júní á Hofsósi. Víkurfréttir náðu tali af Sigvalda fyrr í vikunni þar sem hann hvíldi lúinn bein í gamla heimabænum sínum Hofsósi.

„Ég er kominn á leiðarenda eftir langa og stranga göngu og nýt þess nú að hvíla mig í veðurblíðunni hér á Hofsósi. Ég og fjölskyldan vorum að koma úr sundi í flottustu sundlaug landsins og nú er stefnan sett á ísbúðina enda er 19 stiga hiti og blankalogn hjá okkur.“ Sigvaldi sagði að þetta veður væri draumi líkast og algjörlega magnað eftir að hafa fengið alls konar veður á göngu sinni til Hofsós.

En hvers vegna að ganga til Hofsós frekar en t.d. til Akureyrar?
„Hér á Hofsósi sleit ég barnskónum til hálfs á við Keflavík. Hérna var ég öll sumur sem strákur og hér á fjölskyldan hús, þannig að maður á hér töluverðar rætur. Þess vegna varð nú Hofsós fyrir valinu,“ sagði Sigvaldi.

Heilt maraþon á dag

Sigvaldi hefur lýst því að gangan hafi tekið miklu meira á hann líkamlega en hann hafi getað ímyndað sér í upphafi. Hann tók þetta verkefni þó föstum tökum, æfði vel og undirbjó sig eins vel og hann gat. Sigvaldi labbaði heilt maraþon á dag að meðaltali í göngunni, eða rúmlega 42 kílómetra. Suma daga gekk hann þó mun lengra, eins og fyrsta daginn þegar hann gekk 60 kílómetra og eins gekk hann 60 kílómetra þegar hann gekk yfir Holtavörðuheiðina.

„Erfiðasti dagurinn var klárlega þegar ég labbaði yfir Holtavörðuheiðina,“ sagði Sigvaldi. „Sem betur hafði ég góðan stuðning frá félögum mínum og samstarfsmönnum sem komu og gengu með mér en einnig gerðu 20 verkjatöflur sitt gagn líka.“

Bólgur, mar og blöðrur

Ljóst er að svona ganga, heilir 370 kílómetrar, tekur mikið á bæði líkamlega og andlega. Sigvaldi hefur þurft að berjast við bólgna og marða ökkla sem og blöðrur og blæðandi sár eftir sprungnar blöðrur. Var hann oft mjög illa haldinn í fótum í lok hvers dags. Þar komu félagar í björgunarsveitinni Suðurnes í góðar þarfir en þeir fylgdu honum alla leið og sáu um að sinna fótum göngugarpsins að kvöldi sérhvers dags, huga að sárum hans, kæla niður bólgur og búa þannig um að hann yrði göngufær í upphafi næsta dags. Sigvaldi vildi koma sérstökum þakklætiskveðjum til félaga í Björgunarsveitinni Suðurnes fyrir alla þeirra ómetanlegu aðstoð.

Nú er stutt liðið frá lokum göngunnar, eru sárin gróin?
„Nei þau eru nú ekki gróin, en þau eru að gróa. Það eru hellings bólgur í ökklunum ennþá og töluvert mar en þetta svona kemur smátt og smátt. Ég get víst ekki sagt að þetta grói áður en ég gifti mig því að ég er búinn að gifta mig,“ sagði Sigvaldi hlæjandi og bætti því við í léttum tón að sárin yrðu sennilega gróin fyrir næstu göngu!

Söfnunin heldur áfram

Eins og kunnugt er skírði Sigvaldi gönguna Umhyggjugangan og var gangan farin til styrktar Umhyggju.is sem er félag til stuðnings langveikum börnum. Sigvaldi setti því upp söfnun til handa félaginu þar sem hægt er að leggja inn á reikning: 0142-15-382600 eða hringja í síma: 901-5010 og styrkja fyrir 1000kr, 901-5020 fyrir 2000kr og 901-5030 fyrir 3000kr. „Söfnunin heldur áfram þangað til 01. júlí og fólk getur því styrkt söfnunina þangað til.“

Hvernig hefur söfnunin gengið?

„Hún hefur bara gengið mjög vel. Ég setti mér ákveðið markmið í byrjun og hafði ákveðnar væntingar varðandi söfnunarupphæð áður en ég lagði af stað. Ég hélt þeim væntingum bara fyrir sjálfan mig og hef ekkert verið að auglýsa það neitt en söfnunin er komin fram yfir það markmið og ég er því bara gríðarlega sáttur.“

Sigvaldi sagðist auk þess hafa fengið frábærar viðtökur hvar sem hann kom í göngunni og allir verið boðnir og búnir að hjálpa honum og liðsinna. „Það var sama hvar ég kom það vildu allir allt fyrir mig gera og aðstoða á allan hátt. Ég hringdi til dæmis í sundlaugina í Borgarnesi áður en ég kom þangað og kynnti mig sem Sigvalda, „Já þarna göngukall,“ var svarið frá þeim og þeir buðu mér og öllum sem fylgdu mér frítt í sund. Svona var stemningin alls staðar þar sem ég kom,“ sagði Sigvaldi.

Þakklátur

Sigvaldi vildi að lokum koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem á einhvern hátt aðstoðuðu hann við gönguna, allra styrktaraðila hans og allra þeirra vina og samstarfsmanna sem sumir hverjir tóku sér á hönd langt ferðalag til að ganga með honum einhvern hluta leiðarinnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024