Sandra Lind er 17 ára dúx
Þann 14. júní verður Sandra Lind Þrastardóttir 18 ára. Á dögunum gerði hún sér lítið fyrir og dúxaði við Fjölbrautaskóla Suðurnesja, nokkuð á undan áætlun. Sandra stökk yfir bekk í grunnskóla og kláraði því ári á undan jafnöldrum sínum. Hún tók síðan framhaldsskólann á þremur árum og útskrifaðist með glæsibrag.
Sandra útskrifaðist með 9,15 í meðaleinkunn úr FS. Hún segist vera nokkuð sátt með það en alltaf megi gera betur. „Það var ein sjöa þarna í dönsku,“ segir hún og hlær. Hún segist ekki hafa fundið of mikið fyrir heimanáminu á skólagöngunni en hún passaði að læra alltaf vel fyrir prófin. „Ég held að það sé ekkert verra að stunda íþróttir með námi,“ segir Sandra sem er ein af fjölmörgum efnilegum leikmönnum meistaraflokks kvenna í körfuboltanum í Keflavík. Hún hefur verið afar sigursæl á sínum ferli og oft æft með mörgum flokkum í einu. „Það hefur ekkert verið erfitt að samræma námið með körfuboltanum. Maður venst því að skipuleggja sig. Þú þarft að vera skipulögð ef þú ætlar að láta þetta takast.“
15 ára gömul í Verzló
Á sínum tíma var Söndru boðið að sleppa 8. bekk í grunnskóla. Hún þáði það og segir að það hafi verið góð ákvörðun á sínum tíma. Hún úrskrifaðist með hæstu einkunn úr grunnskóla og var byrjuð í Verzlunarskóla Íslands aðeins 15 ára gömul. Það reyndist þrautin þyngri að vera bílprófslaus og æfa körfubolta með þremur flokkum samhliða krefjandi námi við skólann. Sandra skipti því yfir í skólann á heimaslóðum eftir eina önn, en hún segir tíma sinn í FS hafa verið afar ánægjulegan.
Landsliðsverkefni framundan í körfuboltanum
Framundan er annasamt sumar þar sem körfuboltinn er í aðalhlutverki. Sandra fór ásamt liðsfélögum sínum í U18 ára landsliðinu til Solna í Svíþjóð þar sem Norðurlandamótið í körfubolta fór fram. Á dögunum var Sandra einnig valin í úrtak hjá A-landsliðinu. Sandra fékk stærra hlutverk en vanalega með Keflvíkingum í vetur. Hljómar undarlega að segja slíkt um tæplega 18 ára stúlku, en ungu leikmennirnir hafa jafnan fengið að spreyta sig hjá liðinu. Metnaðurinn er mikill og Sandra segir að það hafi ekki verið fyrr en undir lok tímabils sem hún hafi orðið nokkuð sátt við sinn leik. „Þetta var aðeins öðruvísi tímabil og nokkrar breytingar með nýjum þjálfara.“
Draumurinn af fara til Bandaríkjanna í skóla
Sandra ætlar að vera í vinnu fram að jólum og sjá svo til hvað verður í skólamálum.
„Draumurinn er að fara til Bandaríkjanna og spila körfubolta í háskóla. Hvað ég mun svo læra er ekki alveg ákveðið, en ég tel að það verði eitthvað viðskiptatengt. Ég hef gaman af fögum eins og stærðfræði, bókfærslu og viðskiptafræði,“ segir Sandra sem útskrifaðist af viðskipta- og hagfræðibraut.
„Í alvörunni átti ég ekki von á þessu. Maður heyrir af því að fólk sé að dúxa með töluvert hærri einkunn og því veit maður ekkert hvort að einhver sé með hærri einkunn en maður sjálfur. Þetta var mjög gaman,“ segir Sandra um nafnbótina og árangurinn við útskriftina. Sem keppnismanneskja þá viðurkennir Sandra að það sé mjög gaman að vinna. „Það er alltaf gaman að hafa eitthvað sem sýnir að maður hafi gert vel.“