Sandgerðingar fóru á kostum í Latabæ - myndir og video
„Það sem var sérstaklega skemmtilegt var að það voru margir nemendur sem fengu tækifæri til að stíga út fyrir rammann og sýna á sér nýja hlið og mættu óhræddir fyrir framan fullan sal af fólki. Það er alveg ljóst að það eru margir ungir og efnilegir leikarar í sveitarfélaginu. Þetta var frábært verkefni og gaman að brjóta skólastarfið svona upp,“ sagði Íris Valsdóttir, umsjónarkennari 7. bekkjar Sandgerðisskóla og leiklistarkennari, en hún var leikstjóri sýningarinnar Áfram Latibær sem var sýnd tvisvar á sal skólans.
„Þó það séu bara tveir bekkir sem eru að leika í sýningunni er í raun allur skólinn sem tekur þátt í þessu því það er svo margt sem þarf að gera í svona stórri sýningu, alls kyns tæknimál og stýringar, svo ekki sé minnst á æfingarnar og undirbúninginn. Þetta var miklu stærra en ég átti von á en alveg svakalega skemmtilegt og tókst svo vel,“ segir Íris.