Sandgerði: Afmælistónleikar Tónlistaskólans á laugardag
Tónlistarskóli Sandgerðis heldur upp á 25 ára starfsafmæli sitt nk. laugardag með tónleikum í Safnaðarheimilinu í Sandgerði. Fjölbreytt dagskrá verður flutt á hin ýmsu hljóðfæri og er efnisskráin lituð af verkum Mozarts, en hann hefði orðið 250 ára 27. janúar í ár. Allir eru hjartanlega velkomnir að njóta þessarar ljúfu morgunstundar með nemendum og starfsfólki.
Tónlistarskóli Sandgerðis var stofnaður í janúar 1981 og hófst kennsla strax í sama mánuði, þann vetur fór hún öll fram í einu herbergi Grunnskóla Sandgerðis. Fyrsti skólastjóri var Margrét Pálmadóttir.
Um haustið fékk skólinn afnot af neðri hæð húss að Hlíðargötu 20 Sandgerði, var hann starfræktur þar í 15 ár. Haustið 1996 fluttist Tónlistarskóli Sandgerðis í vesturálmu grunnskólans og starfar þar enn í dag.
Frá upphafi hafa skólastjórar verið sjö, núverandi skólastjóri er Lilja Hafsteinsdóttir og tók hún við því starfi haustið 1994. Í dag eru nemendur 140 talsins.
Af vef Sandgerðis