Samstarf um menningu á Suðurnesjum
Síðasta laugardag stóðu Menningarfulltrúar á Suðurnesjum ásamt verkefnastjóra Menningarráðs Suðurnesja fyrir málþingi um menningu í Bíósal Duushúsa. Yfirskrift málþingsins var Staðarímynd/Staðarvitund. Á málþinginu töluðu bæði heimamenn og aðilar utan svæðisins. Þeir Einar Falur Ingólfsson, Kjartan Ragnarsson og Jónatan Garðarsson bentu á fjölmörg ný tækifæri í menningu – og menningartengdri ferðaþjónustu á Suðurnesjum, sem gætu gert Suðurnesin enn áhugaverðari valkost fyrir ferðamenn, til að sækja okkur heim. Eftir hádegi voru stutt erindi frá tíu listamönnum og forkólfum sem starfa að sinni listsköpun á Suðurnesjum. Ljóst er af erindum heimamanna að mikill kraftur og sköpunargleði er í menningarlífinu á Suðurnesjum og fram kom mikill áhugi listamannanna að láta að sér kveðja í listsköpun sinn í framtíðinni.
Á meðfylgjandi mynd klæðast menningarfulltrúar sveitarfélaganna á Suðurnesjum þau, Guðjón Þ. Kristinsson, Sandgerði, Stefán Arinbjarnarson, Vogum, Kristinn Reimarsson, Grindavík og Valgerður Guðmundsdóttir, Reykjanesbæ, ásamt Kristjönu Kjartansdóttur, fulltrúa Garðs, þessum skemmtilegum lopapeysum. Helga Ingólfsdóttir prjónaði peysurnar og hannaði munstrin sem eru bæjarmerki allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum.