Samstaða allra bæjarbúa stendur upp úr
Steinþór Jónsson, hótelstjóri á Hótel Keflavík, var á fyrstu árum Ljósanætur oft kallaður Ljósálfur vegna ómetanlegs frumkvölastarfs hans við Ljósanótt. Í seinni tíð hefur Steini dregið sig aðeins í hlé hvað varðar undirbúning og framkvæmd hátíðarinnar en VF langaði að vita hvað hann hafi farið og gert sumarfríinu og hvað hann ætli nú að gera á Ljósanótt í ár.
Hvernig varðir þú fyrsta sumarfríinu eftir Covid án takmarkana?
„Hjá okkur Hildi eru frí oftast tekin á öðrum tímum en yfir hásumarið. Í gegnum tíðina hefur fjölskyldan því notið vetrar sólarinnar í Florida en þar eigum við afdrep með tjörn og garði þar sem við njótum villtra fugla og dádýra sem ganga frjáls um svæðið. Að sjálfsögðu lokaðist þessi paradís fyrir okkur í Covid en við náðum þetta sumarið að fara þangað í ömmu og afa ævintýraferð með barnabörnin okkar þrjú snemma í vor.“
Hvað stóð upp úr?
„Fyrir utan þakklæti fyrir að geta loks ferðast stóð upp úr þær nýju áherslur hvernig fríinu er varið bara með barnabörnunum þarna fimm, sex og sjö ára, og deginum varið í samræmi við þeirra óskir. Þessi nær tveggja vikna samverustund mun ávallt skipa stóran sess í minningunni og mun verða endurtekin um leið og tækifæri gefast.“
Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?
„Það er gaman að sjá hve Íslendingar almennt voru tilbúnir að gera sér glaðan dag og njóta þess að geta átt eðlileg samskipti aftur. Veitingastaðurinn okkar KEF Restaurant og Diamond Bar voru þéttsettnir í sumar alla daga vikunnar af bæjarbúum. Síðustu ár var það frekar þannig að grunnurinn kæmi með hótelgestum en í sumar voru þeir bara hrein viðbót.“
Áttu þér uppáhaldsstað til að sækja heim innanlands?
„Meðalfellsvatn í Kjós stendur upp úr hjá okkur Hildi og fjölskyldunni allri enda fallegasti staðurinn á landinu að okkar mati. Þessi perla er í aðeins hálftíma fjarlægð frá höfuðborginni en hefur allt það besta upp á að bjóða sem íslensk náttúra hefur fram að færa. Á það bæði við um sumrin og veturnar. Einstaklega falleg fjöll, gróður og vatn sem gefur bæði lax og silung á góðum degi. Þá er Ólafsfjörður staður sem ég heimsótti með foreldrum mínum sem barn og geri enn.“
Hvað er á dagskránni hjá „Ljósa-Steina“ á Ljósanótt 2022?
„Eðlilega þarf ég að miða dagskránna aðeins út frá því sem við sjálf erum að bjóða upp á í kringum Hótel Keflavík, KEF Restaurant, Diamond Lounge & Bar og í glerskálunum öllum. Síðustu mánuði höfum við t.d. verið að byggja yfir útipallinn okkar, Sunny KEF, og huga að framkvæmdum utandyra sem og í almennu rými með Ljósanóttina sem lokapunkt í því ferli. Við erum eðlilega fullbókuð alla þessa daga á hótelinu en eigum líka von á vel yfir þúsund gestum í mat eða drykk svo áherslan er þar.
Þar fyrir utan langar mig að leggja áherslu á sýningar og fara með barnabörnin, dæturnar og tengdaforeldra á það sem þeim hugnast í frábærri dagskrá Ljósanætur hverju sinni. Þetta er sannkölluð fjölskylduhátíð og þess ætla ég að njóta framar öllu öðru.“
Þegar þú lítur til baka á 20 ára sögu Ljósanætur, hvað er svona eftirminnilegast í þínum huga?
„Í fyrsta lagi er ótrúlegt hve 20 ár líða hratt en þegar lífið er gefandi og nóg að gera flýgur tíminn. Samstaða allra bæjarbúa frá fyrsta degi um að gera Ljósanótt að alvöru menningar- og fjölskylduhátíð fyrir svæðið stendur upp úr hjá mér. Eðlilega var ég stressaður hvernig til myndi takast og varð meðal annars að bera fulla ábyrgð á veðrinu á Ljósanótt, allavega fyrstu árin. Þar að auki var stress hvernig listaverkið, Ljósin á Berginu, myndi takast í raunveruleikanum því kaldur og náttúrulegur klettaveggurinn er bæði skörðóttur og ójafn eftir þúsund ára ágang sjávar og mitt verk að ljúka þessari margra alda uppbyggingu Bergsins með fallegum ljósum. Ég er persónulega sáttur með útkomuna, og hef reyndar aldrei heyrt annað frá fólki, og fullyrði samhliða að fallegri skotpall fyrir flugeldasýningu með speglun yfir sjávarflötinn er vandfundinn.
Það sem mér fannst skemmtilegast fyrstu tíu Ljósanæturnar voru þær framkvæmdir sem voru vígðar á Ljósanótt enda framkvæmdarmaður og vil sjá hlutina vaxa og dafna. Ljósanóttin er ákveðin tímamót í okkar samfélagi og fólk segir iðulega fyrir og eftir Ljósanótt eins og um áramót séu að ræða. Þetta gleður mig mest af öllu.
Það sem stendur upp úr svona persónulega í tengslum við Ljósanótt er;
þegar dætur mínar fengu að kveikja á Ljósunum á Berginu í fyrsta skiptið og mannfjöldinn klappaði undir veglegri flugeldasýningu. Þegar ég sá fallega viðtalið hans Páls Ketilssonar við pabba minn, Jón William Magnússon, og hve vel hann naut sín á Ljósanótt en viðtalið var tekið á súpukvöldinu árið 2014 en ég sá það fyrst á jarðarfaradegi pabba sléttum tveimur mánuðum síðar.
Ég er mjög þakklátur fyrir Ljósanóttina okkar, samstöðuna í bænum og góðar minningar sem ég vona að við eigum sem flest frá hátíðinni. Að lokum vonumst við Hildur til að sjá ykkur sem flest og allir að sjálfsögðu velkomnir til okkar á KEF til að upplifa alvöru Ljósanæturstemmingu - og já ég lofa sól og fallegu veðri.“
Miklar breytingar hafa verið á KEF resturant og Hótel Keflavík.
Barnabörnin, Ísabella Ósk, Óskar Örn og Alexander Helgi, heima í garðinum í Florida.
Við Meðalfellsvatn, fallegasti staðurinn.
Jón William heitinn Magnússon árið 2014 í Skólamatar kjötsúpu og í VF spjalli.