Samningur um vistvang í Lágafelli undirritaður
Gras sem slegið er af grænum svæðum verður dreift yfir mela og uppblásin svæði.
Samstarfsamningur milli Grindavíkurbæjar og GFF um vistvang í Lágafelli í landi Grindavíkur var samþykktur á aðalfundi samtakanna Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs (GFF) í Hannesarholti í Reykjavík í vikunni.
Vistvangur er hugtak sem GFF hefur mótað upp á síðkastið í anda þess starfs sem samtökin hafa stundað í 17 ár, þ.e. að nota lífræn úrgangsefni til uppgræðslu örfoka lands. Samningurinn kveður á um samstarf við að koma þeim lífrænu úrgangsefnum sem samningsaðilar koma höndum yfir í Grindavík og nýta til að koma til gróðri í Lágafelli.
Í sumar verður t.d. flutt þangað gras sem slegið er af grænum svæðum bæjarins og því dreift yfir mela og uppblásin svæði. Einnig verður notuð molta úr jarðgerð í Grindavík til að koma til gróðri. Í sunnanverðu Lágafelli er gömul efnisnáma sem verður grædd upp í nafni verkefnisins.
GFF hefur unnið með Grindavíkurbæ í Lágafelli áður. Vestan í svæðinu plöntuðu ungmenni úr vinnuskólanum talsverðu af trjáplöntum, aðallega birki, í grjótmel sumarið 2003 undir handleiðslu samtakanna. Sá staður hefur tekið miklum stakkaskiptum á þeim áratug sem liðinn er. Austan í Lágafelli hafa nemendur úr Grunnskóla Grindavíkur svo plantað síðan vorið 2006 í svæði sem í eina tíð var notað sem efnisnáma. Það svæði hefur einnig breyst til muna frá því sem áður var.
Í samningnum er ákvæði um áframhaldandi þátttöku skólaæskunnar í uppgræðslu svæðisins enda ræktun lands og lýðs einn af hornsteinum hugtaksins vistvangur.
Myndirnar að neðan eru frá Lágafelli vestur. Sú fyrri tekin í júlí 2003 og sú seinni í júlí 2013. Vel má sjá muninn á 10 árum.