Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Samkenndin í náminu skipti sköpum
Eyrún Ösp við útskrift frá Háskóla Íslands
Föstudagur 6. maí 2016 kl. 10:00

Samkenndin í náminu skipti sköpum

- Var í fyrsta hópnum sem lauk Háskólabrú Keilis

Eyrún Ösp Ingólfsdóttir hóf nám hjá háskólabrú Keilis þegar hún var 32 ára. Hún segir námið hafa verið skotheldan undirbúning fyrir frekara háskólanám.

Eyrún Ösp Ingólfsdóttir er forstöðumaður Heiðarholts, skammtímavistunar fyrir börn með fötlun og vinnur auk þess að málefnum fólks með fötlun fyrir félagsþjónustur Sandgerðis, Garðs og Voga. Hún var í fyrsta hópnum sem lauk námi frá háskólabrú Keilis árið 2008.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég lauk einni önn við Fjölbrautaskóla Suðurnesja en fór svo að vinna og lauk eftir það einum og einum áfanga í kvöldskóla,“ segir Eyrún sem lauk síðar stúdentsprófi frá háskólabrú Keilis. Hún segir námið þar hafa verið góðan tíma. „Við nemendurnir fengum mikinn stuðning frá starfsfólki skólans en það er sérstaklega mikilvægt fyrir fullorðið fólk sem er að byrja aftur í námi eftir margra ára hlé,“ segir hún. „Ef upp kom vandamál var það bara leyst og það var mikil samkennd á meðal allra. Námið var mjög góður undirbúningur fyrir háskólanám þar sem umhverfið er ekki alveg eins persónulegt.“

Eyrún Ösp og fjölskylda fluttu í íbúð á Ásbrú meðan hún var þar í námi. „Við fórum alla leið og það var partur af því að stunda nám þarna að breyta um umhverfi og flytja á háskólasvæðið.“ Þau fjölskyldan fluttu svo aftur í Reykjanesbæ að námi loknu.

Eftir að Eyrún lauk háskólabrúnni hóf hún nám í sálfræði við Háskóla Íslands en skipti svo yfir í félagsfræði eftir fyrsta árið. Með náminu vann hún á sambýli og við skammtímavistun barna með fötlun. Hún fann sig vel í þeim störfum og eftir það var ekki aftur snúið en eins og áður sagði starfar hún núna að málefnum fólks með fötlun og veitir Heiðarholti forstöðu. „Þetta varð hálfgerð köllun á þessum tíma. Ég fann hvað störf að málefnum fólks með fötlun áttu vel við mig.“ Á lokasprettinum í félagsfræðináminu bauðst Eyrúnu svo að taka við umsjón með búsetu og vinna að málefnum fólks með fötlun. Hún tók svo við starfi forstöðumanns Heiðarsels í byrjun síðasta árs.