Samkennd og sterk liðsheild
Bjarni Rúnar og Alma eru reynslumikið björgunarsveitarfólk.
Mikið hefur mætt á björgunarsveitarfólki í ófærðinni og óveðrinu að undanförnu og líklega átta sig fáir á fórnunum sem fylgja þessu starfi. Víkurfréttir hittu tvo liðsmenn Björgunarsveitarinnar Suðurnes, Bjarna Rúnar Rafnsson, varaformann og Sigríði Ölmu Ómarsdóttur. Þau veita lesendur örlitla innsýn í út á hvað þetta allt gengur, bæði fórnir og áföll en einnig gleðina fyrir það að koma að gagni. Framundan er árleg sala flugelda sem er stærsta og mikilvægasta fjáröflun björgunarsveita.
„Það skiptir okkur björgunarsveitarfólk miklu máli að fjölskyldan standi þétt við bakið á manni því vegna eðlis verkefnanna sem við getum lent í að taka að okkur. Sterkt bakland heima fyrir gerir mann að betri björgunarmanni,“ segir Bjarni Rúnar, sem er giftur og á fjögur börn, þar af þrjú með núverandi konu. Hann er slökkviliðs- og sjúkraflutingamaður að mennt og starfar sem slíkur hjá Brunavörnum Suðurnesja í fullu starfi. „Um er að ræða vaktavinnu og er hver vakt um 12 klukkustundir í senn. Það skiptir gríðarlegu að vinnuveitandi sé skilningsríkur og sveigjanlegur, annars væri ekki hægt að bregðast við á öllum stundum líkt og við reynum alltaf að gera.“
Dags daglega starfar Bjarni Rúnar við neyðarþjónustu sem gerir það að verkum að það er ekki réttlætanlegt fyrir hann að hlaupa úr vinnu til þess að sinna útköllum hjá björgunarsveitinni vegna þess að skylda hans sem slökkviliðs-og sjúkraflutningamaður vegur þyngra. „En þar sem þetta er vaktavinna þá gefur það mér tækifæri að sinna björgunarstörfum á mínum frítíma. Það að hafa starfað sem björgunarsveitarmaður í öll þessi ár finnst mér gera mig að betri slökkviliðs- og sjúkraflutningarmanni. Ég hef starfað í björgunarsveit frá því í janúar 1989 og var þá 17 ára gamall.“
Í sjálfheldu í Raufarhólshelli
Bjarni Rúnar segist starfa í björgunarsveit vegna þess að um sé að ræða gefandi sjálfboðaliðastarf og spennandi og góðan félagsskap. „Það er mest gefandi að geta hjálpað náunganum í neyð. Erfiðast er þegar maður nær ekki að bjarga lífi fólks sem hefur lent í ógöngum. Ef ég á að rifja upp minnistætt atvik úr björgunarsveitarstarfinu væri það þegar ég bjargaði, ásamt öðru björgunarsveitarfólki, fólki í sjálfsheldu í Raufarhólshelli. Þetta var hópur jarðfræðinga sem hafði farið þangað inn. Ótal fleiri útköll koma upp í hugann sem erfitt er að velja úr hvort sem það var á sjó eða í landi og gengu út á að koma fólki til bjargar.“ Bjarni Rúnar segir mjög blandaða flóru af fólki sækja í slík störf en eigi sameiginlegt að vilja láta gott af sér leiða og hjálpa náunganum. „Það besta við félagsskapinn er þessa sterka liðsheild og samkenndin.“
Þéttur stuðningur fjölskyldunnar
Sigríður Alma Ómarsdóttir er ein með tvö börn, Ómar Helga 6 ára og Bergþóru 10 ára. Alma starfar sem bílstjóri hjá Skólamat. Vegna eðlis starfsins er erfitt fyrir hana að komast frá vinnu. „En þau eru mjög liðleg og styðja vel við bakið á björgunarsveitinni, meðal annars láta þau okkur hafa mat fyrir hálendisvaktina, en við tökum viku vakt yfir sumarið. Fjölskyldan stendur einnig vel við bakið á mér ef á þarf að halda og krakkarnir eru öllu vanir hvað þetta varðar og skilja mjög vel ef ég þarf að fara í útkall.“ Alma hefur einnig starfað í björgunarsveit frá 17 ára aldri, byrjaði sama ár og Bjarni Rúnar. „Mér finnst skipta máli að láta gott af mér leiða og getað hjálpað. Þetta er spennandi og gefandi starf og hefur kennt mér mikið. Mest gefandi er þegar maður hefur bjargað/aðstoðað einhvern og veit að þú hefur skipt máli. Erfiðast er þegar útköll eru þar sem að látinn einstaklingur kemur við sögu og erfið slys.“
Kona og ungabarn orðin köld í bíl
Alma rifjar upp minnisstætt atvik þegar hún, ásamt hópi björgunarsveitarmanna, bjargaði nokkur hundruð manns af Reykjanesbrautinni í miklu óveðri fyrir nokkrum árum. „Ég var ásamt öðrum á einum af stóru bílum okkar og við ókum að einum bíl sem við vorum ekki viss um hvort að þar væri einhver í neyð. Við kíktum inn í bílinn og þar var kona með ungabarn en bíllinn hennar var búinn að drepa á sér og þau voru orðin verulega köld. Þegar ég fer svo út í búð og sé þau þá kemur þessi minning úr útkallinu alltaf upp í hugann,“ segir Alma og bætir við að í svona starf sækist mannskapur sem sannarlega vilji láta gott af sér leiða og að liðsheildin sé það besta við félagsskapinn.
Þau Bjarni Rúnar og Alma segja flugeldasöluna sem framundan sé, vera þeirra stærsta fjáröflun. „Hún hjálpar okkur að halda áfram því starfi sem við sem við höfum sinnt. Þá getum haldið áfram að hjálpa almenningi í neyð hvar sem er og hvenær sem er og á hvaða tíma sem er. Þessi stuðningur skiptir öllu máli við rekstur björgunarsveitanna á landinu,“ segja þau að lokum.