Samfélagsstyrkir frá Lionsklúbbi Njarðvíkur
Lionsklúbbur Njarðvíkur hóf formlega sölu á happdrættismiðum í árlegu jólahappdrætti sínu um nýliðna helgi. Við það tækifæri var aðalvinningi happdrættisins komið fyrir í verslunarkjarnanum Krossmóa, en það er Kia Picanto frá K. Steinarssyni í Reykjanesbæ.
Hagnaður af þessu árlega happdrætti er ávallt notaður til góðra samfélagsmála. Við þetta tækifæri voru afhentir nokkrir styrkir í góð málefni. Þannig fengu félagsstarf aldraðra í Selinu og á Nesvöllum myndavélar, sem verða notaðar til að mynda félagsstarfið.
Þá fengu Brunavarnir Suðurnesja GSM sendi í hjartatæki í sjúkrabíl en sendirinn flytur upplýsingar úr hjartatækinu beint á bráðamóttöku Landsspítalans og auðveldar þar með greiningu og styttir öll ferli.
Lionsklúbbur Njarðvíkur styrkti kaup á sérstökum keppnishjólastól fyrir Arnar Lárusson upp á 400.000 kr. Stóllinn kostar um eina milljón króna og aðrir Lionsklúbbar og fleiri aðilar á Suðurnesjum koma einnig að kaupunum.
Þá styrkti klúbburinn Velferðarsjóð Suðurnesja um 200.000 kr. Að endingu fékk Strengjasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar 50.000 kr. en þrír meðlimir strengjasveitarinnar léku nokkur jólalög við þetta tækifæri.