Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér”
Miðvikudagur 15. október 2014 kl. 14:39

„Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér”

Bæjarstjóri RNB skrifar um mikilvægi samstöðu og liðsheilda.

Með orðunum í fyrirsögninni hefst hugvekja Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, á vefsíðu Reykjanesbæjar. „Svona hljómuðu frægustu einkunnarorð íslenskrar sjálfstæðisbaráttu á sínum tíma. Þau vísa til þess að stæði þjóðin saman sem ein heild myndi hún ná árangri en falla væri hún sundruð í margar fylkingar.“

Kjartan segir liðsheildir vera ýmis konar. Minnstu lið í íþróttum séu 2 leikmenn, t.d. í tvíliðaleik í tennis, 5 í körfubolta, 11 í knattspyrnu o.s.frv. „Það er ekki sjálfgefið að þó bestu einstaklingarnir myndi lið verði það besta liðið. Það gilda nefnilega ýmis fleiri lögmál í liðsvinnu. Tillit, skilningur, þolinmæði, umburðarlyndi og virðing eru dæmi um slíka þætti. Að þekkja styrkleika og veikleika liðsfélaganna, þekkja stefnuna, vera sáttur við hana og tilbúinn að leggja sig allan fram til þess að hún nái fram að ganga, þekkja sitt hlutverk í liðinu o.s.frv. eru enn aðrir þættir.“

Eftir því sem liðsheildin sé stærri segir Kjartan heildarmarkmiðin verði, og hlutverk hvers og eins í að þau náist, að vera skýrari. Þá þurfi liðsmenn stundum að láta persónuleg markmið víkja fyrir heildarhagsmunum. „Það er t.d. freistandi fyrir leikinn sóknarmann í knattspyrnu að reyna að reka boltann einn upp vallarhelming andstæðingana, leika á hvern mótherjann á fætur öðrum og skora í von um að fá allt klappið og hrósið sjálfur. Líkurnar á að það takist hins vegar eru ekki miklar og því reyna leikmenn þetta sjaldan. Að senda boltann á milli og skapa færi fyrir aðra liðsmenn, sem vonandi skora mark, er dæmi um liðsvinnu sem skilar oftar betri árangri og er því mun algengari.“

Síðan tekur Kjartan mið af sigri liðs Reykjanesbæjar í Útsvari síðastliðinn föstudag og að þar hafi verið um að ræða frábært dæmi um hvernig ólíkir einstaklingar myndi sterka liðsheild sem nái árangri. „Þremenningarnir Guðrún (Dúnna), Grétar og Baldur voru sterk á mismunandi sviðum sem féllu vel saman í eina liðsheild þegar mest á reyndi. Dúnna vissi m.a. að foreldrar jarðálfsins Láka heita Snjáki og Snjáka á meðan Baldur og Grétar komu sterkir inn á öðrum sviðum.“

Að lokum fer Kjartan inn á að stefnt sé að því að kynna stöðu fjármála Reykjanesbæjar á opnum borgarafundi. „Nú er stefnt að því að halda slíkan fund í Stapa miðvikudagskvöldið 29. okt. kl. 20:00. Eins og fram hefur komið er staðan ekki góð og nauðsynlegt fyrir sveitarfélagið að það takist að snúa henni við. Til þess að það verði hægt þarf að nást víðtæk samstaða og liðsheild á meðal bæjarfulltrúa, starfsmanna og allra íbúa Reykjanesbæjar. Takist okkur að fylgja ráðum Jóns Sigurðssonar og þeirra Fjölnismanna og sameinast en ekki sundrast verða okkur allir vegir færir,“ segir Kjartan að lokum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024