Saltarinn til heiðurs starfsfólki Þorbjarnar
Útgerðarfélagið fagnar 70 ára afmæli á árinu.
Útgerðarfélagið Þorbjörn í Grindavík, fagnar 70 ára afmæli á þessu ári og að því tilefni var afhjúpað listaverk sem á rætur sínar að rekja til Spánar. Einn af kaupendum á saltfiski frá Þorbirni, Giraldo er með svona listaverk og hafði lengi blundað í Þorbjarnarfólki að fá eins listaverk til Íslands og mátti ekki miklu muna að ekki tækist að frumsýna verkið á sjómannahelginni, verkið kom ekki til Íslands fyrr en á fimmtudeginum.
Til heiðurs starfsfólkinu
Gunnar Tómasson, fór yfir sögu Þorbjarnar og hvernig kom til að þetta verk hefði orðið fyrir valinu. „Þorbjörn hf. var stofnað árið 1953 af Sigurði Magnússyni, Kristni Ólafssyni, Sæmundi Þórðarsyni og föður mínum, Tómasi Þorvaldssyni. Fyrirtækið hefur ávallt verið farsælt og þessi hugmynd, að reisa þetta listaverk hér við höfuðstöðvar okkar, hefur blundað í okkur í u.þ.b. tuttugu ár. Það er spænskur listamaður að nafni Eskerri sem gerir verkið en einn af okkar tryggustu viðskiptavinum í gegnum tíðina, Giraldo, fékk fyrsta verkið og við höfum alltaf verið hrifnir af því. Við ákváðum svo í tilefni af þessu 70 ára afmæli, að drífa í að fá verkið til landsins og erum stoltir af því að frumsýna það hér,“ sagði Gunnar.
Úr bátaútgerð í frystitogara
Gunnar skautaði aðeins yfir hvað ber hæst í sögu Þorbjarnar. „Hvað mig snertir þá eru helstu tímamótin þegar við færum okkur úr bátaútgerð yfir í frystitogarana árið í kringum 1990. Það er ákveðinn vendipunktur í okkar sögu og stuttu síðar sameinuðumst við öðrum fyrirtækjum og stækkuðum þar með. Þegar ég horfi tíu ár fram í tímann þá mun Þorbjörn vonandi verða orðið ennþá stærra og öflugra fyrirtæki. Við höfum alltaf verið farsæl, ekki síst vegna þeirra frábæru starfsmanna sem við höfum, hvort sem er í landi eða á sjó. Við eigum okkar starfsfólki mikið að þakka,“ sagði Gunnar að lokum.
Þessa ræðu flutti Gunnar við afhjúpun listaverksins:
„Á þessu ári eru 70 ár síðan fyrirtækið Þorbjörn hf. var stofnað.
Við fögnum því með því að reisa þessa listaverk sem við nefnum SALTARANN. Listaverkið er til að heiðra starfsfólkið okkar fyrr og síðar sem hefur lagt okkur lið með því að veiða og gera verðmæti úr fengnum afla. Það hefur oft verið erfitt en þrautseigja og samstaða allra hefur áorkað því að í dag höfum við starfað í 70 ár. Styttan er tákn afls og áræðis. Hún er líka til að heiðra viðskiptavini okkar hér heima og erlendis, en þeir hafa verið bakbeinið í starfi félagsins.
Fyrirtækið Giraldo í Baskalandi Spánar hefur verið viðskiptavinur Þorbjarnar í áratugi og hefur sent okkur þessi skilaboð og eru rituð á fótstall styttunnar. Olas Hielo, Sal Sangre entre el Sudor y a final un Tesoro sem gæti þýtt á íslensku:
Öldur - Ís - Salt
Blóð í svitanum
Og að lokum fjársjóður
Líka þetta orðatiltæki á Basknesku
Gure odol gazituaren gogoan
Gæti þýtt: Í huga okkar salta blóðs“