Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sálin í Top Of The Rock á laugardagskvöld
Þriðjudagur 7. október 2008 kl. 21:45

Sálin í Top Of The Rock á laugardagskvöld

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sálin hans Jóns míns treður upp á Vellinum á laugardaginn. Slegið verður upp græjum og tilheyrandi tólum í hinum nafntogaða klúbbi Top Of The Rock á Miðnesheiði. Þar rokkuðu feitu Kanarnir feitt fyrrum, en þetta húsnæði hefur lítt verið notað í seinni tíð. Ætla Sálverjar að leika öll sín helstu lög, gömul jafnt sem ný. Svo vill til að á laugardaginn á gítarleikarinn Guðmundur Jónsson afmæli og má gera ráð fyrir að hann sýni mikla tilburði af því tilefni. Mun hann m.a. leitast eftir því að kveða kreppuna tímabundið í kútin með gítarslætti, en vísindamenn við háskólann í Turku hafa bent á að tónlist sé eitt besta kreppumeðal sem völ er á.

Forsala miða fer fram í Gallerí Keflavík. Húsið opnar svo kl. 23 á laugardagskvöld. Heimamaðurinn DJ Atli sér um að hita upp og kæla niður gengið eftir því sem við á. Tæknistjóri verður magisterinn Sveinn Grétarsson og ljósameistari Kjartan Orri Fanndal, cand oceon.

Að leik loknum verður gegn vægu gjaldi hægt að fá sætaferð til Kefla- og Njarðvíkur, nokkuð sem fótþreyttir tónleikagestir kunna líkast til vel að meta.

Sálin sendir í næsta mánuði frá sér veglegan útgáfupakka sem geymir öll helstu lög sveitarinnar og gott betur. Útgáfan heitir "Hér er draumurinn" og verður einhver íburðarmesta hljóð- og mynddiskaútgáfa sem staðið hefur fyrir hérlendis. Hún mun innihalda 45 þekktustu lög sveitarinnar, auk tónleikaupptakna, heimildamyndar, fjölda ljósmynda og fróðleiks um Sálina, sem í ár fagnar 20 ára starfsafmæli sínu. Á næstunni fer glænýtt lag í útvarpsspilun, lagið "Það er satt", eftir Guðmund og Friðrik Sturluson. Það lag verður að sjálfsögðu að finna á "Hér er draumurinn", líkt og lögin "Gott að vera til" og "Það amar ekkert að (ég get svo svarið það)", sem hljómað hafa mikið í viðtækjunum í sumar.