Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sálin í Officera klúbbnum á laugardaginn
Þriðjudagur 5. ágúst 2008 kl. 12:35

Sálin í Officera klúbbnum á laugardaginn

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ein lífseigasta og vinsælasta poppsveit lýðveldistímans, Sálin hans Jóns míns, kemur á laugardaginn í fyrsta skipti fram á gamla varnarsvæðinu í Keflavík, eða á "Vellinum", eins og það var kallað áður fyrr. Flestar af merkissveitum Íslandssögunnar hafa troðið þar upp, enda þótti fyrrum mikill búhnykkur að fá "gigg" á Miðnesheiðinni, þar sem allskyns munaðarvarningur var innan seilingar, sem lengi vel var ekki var fáanlegur annars staðar, t.a.m. bjór og sælgæti ýmiskonar. Þótt tímar ofurtolla og mikilla hafta séu að mestu liðnir og bjór nú fáanlegur í flestum póstnúmerum landsins, er mikil eftirvænting í röðum Sálverja yfir því að halda suður með sjó á þennan fyrrum hermannareit, enda hefur bandið ekki troðið upp á Suðurnesjum frá því í apríl 2007, þegar bankagóðærið stóð sem hæst. Líklegt er einnig að Suðurnesjamenn og meyjar séu orðin þyrst eftir góðu giggi þar um slóðir, því ekki hefur verið í stórt skemmtihús að venda um nokkurt skeið, eða frá því að Stapanum var lokað vegna mikilla breytinga sem þar standa nú yfir. Aldurstakmark í Officera klúbbinn verður 20 ár. Húsið opnar kl. 23 og það verður hinn geðþekki plötusnúður, DJ Stjáni, sem sér um að hita mannskapinn upp. Forsala miða stendur yfir í Gallerí Keflavík. Þess má að lokum geta, að sætaferðir verða farnar til Keflavíkur að leikslokum.

Sálverjar munu hita upp fyrir Officera-giggið í heimabyggð forsöngvarans, Kópavogi, en sveitin treður upp á Players föstudagskvöld.