Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sálartetrið nært á flottri sýningu í Andrews - myndir af sýningu og gestum
Fimmtudagur 31. ágúst 2017 kl. 17:10

Sálartetrið nært á flottri sýningu í Andrews - myndir af sýningu og gestum

Það er óhægt að segja að sálin hjá mörgum tónleikagestum „Með soul í auga“ hafi verið vel nærð eftir kvöldstund í Andrews salnum á Ásbrú á miðvikudagskvöldi, þjófstartskvöldi á Ljósanótt. Tuttugu og fimm lög úr smiðju þekktra tónlistarmanna sem hafa sett svip sinn á samtíðina, í flutningi nokkurra stórstjarna úr íslenska tónlistarheiminum, nærðu gestina sem sungu og dilluðu sér á góðu upphafskvöldi Ljósanætur. Sjöunda sýning tónleikaraðarinnar „Með blik í auga“ er mjög skemmtileg og fékk mjög góðar mótttökur tónleikagesta.

Forsvarsmenn tónleikaraðarinnar sögðu fyrir nokkru að þeir hafi viljað búa til gleðisýningu með góðri tónlist og glensi í bland. Það tókst mjög vel. Hluti úr íslenska tónlistarlandsliðinu sá um sönginn, Jóhann Guðrún, Helgi Björnsson, Eyþór Ingi, Stefanía Svavars og Jón Jónsson stóðu sig öll mjög vel. Jóhanna ætti náttúrulega að vera heimsfræg en hin þrjú eru auðvitað frábær líka. Þeim til aðstoðar eru Suðurnesjamennirnir Arnór Vilbergsson og Guðbrandur Einarsson ásamt sögumanninum Kristjáni Jóhannssyni en þeir þrír eru forsprakkarnir, aðalgæjarnir eins og stundum er sagt. Kristján sögumaður fór ekkert leynt með það sem og að honum fyndist það skemmtilegt. Flott textasamantekt sem fékk marga til að hlægja en var einstaka sinnum aðeins of löng. En það er auðvitað smekksatriði. Með þeim þremur er frábær hljómsveit og söngtvíburarnir Sólborg og Sigríður Guðbrandsdætur sem sáu um bakraddir en voru líka aðalsöngvarar með hinum í nokkrum lögum. Kannski verða þær aðal númerin á næstu árum. Hver veit?

Eins og fyrr segir var lagalistinn langur enda úr mörgum frábærum lögum sálartónlistar að velja. Það voru líka lög sem voru blönduð og voru t.d. með diskó-straumum eins og t.d. lokalagið „September“ með Earth Wind and Fire og varð eitt mest spilaða lag sveitarinnar á sínum tíma. Hópurinn tók það allt saman og úr varð skemmtilegur flutningur. Það er erfitt að taka nokkur lög út úr en tvö síðustu lögin fyrir hlé, „That’s what friends are for“ og „Your love keeps lifting me higher“ fengu mikil viðbrögð í salnum en einnig lög eins og „When a man loves a woman“, „Have I told you lately“ og „Lady marmelade“. Hér eru bara nokkur tínd til en tónlistin var virkilega góð sem og söngurinn. Helgi Björns sagði reyndar að hann hafi fengið róleg lög og þar er hann kannski ekki í essinu sínu þó flutningurinn hafi verið góður. Hann bætti því við einu fjörugu þar sem hann komst í réttan gír.

Sem sagt: Skemmtileg sýning sem við mælum algerlega með, flott lög í flottum flutningi. Blik-urum hefur tekist að gera enn eina hátíðarsýningu sem Ljósanótt getur verið stolt af.

Páll Ketilsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024