Sálarballið í Officera-klúbbnum á morgun
Stefán Hilmarsson segist fullur tilhlökkunar að spila í gamla Officera klúbbnum á Keflavíkurflugvelli annað kvöld. Þá mun Stefán mæta þangað með hljómsveit sína, Sálina hans Jóns míns, og slá upp hressilegum sumardansleik. Húsið opnar kl. 23 annað kvöld, laugardagskvöld.
Þetta mun vera í fyrsta skiptið sem Sálin hans Jóns míns kemur fram á gamla varnarsvæðinu í Keflavík, þar sem flestar af merkissveitum landsins hafa troðið upp í gegnum tíðina.
Í samtali við Víkurfréttir sagði Stefán eina ástæðuna fyrir því að hljómsveit hans hafi aldrei spilað á varnarsvæðinu á sínum tíma vera þá að Sálin má teljast afar séríslensk hljómsveit. Einnig þá e.t.v. að á svipuðum tíma og Sálin verður til er bjórinn leyfður utan girðingar og straumar breytast innan sem utan girðingar og minna er um að leitað sé til íslenskra tónlistarmanna til að skemmta í klúbbum Keflavíkurflugvallar.
Sálin hans Jóns míns hefur ekki spilað fyrir Suðurnesjamenn síðan í apríl á síðasta ári, þegar Stapinn var ennþá uppistandandi í upprunalegri mynd. Stefán Hilmarsson sagði í samtali við Víkurfréttir að á dansleiknum annað kvöld verði leikin lög er spanna alla Sálar-söguna eða um tvo áratugi. Sálin hans Jóns míns er þessa dagana að undirbúa nýja plötu í tilefni af 20 ára starfsafmæli sveitarinnar. Sálverjar séu nýkomnir úr hljóveri þar sem þeir voru að taka upp nýtt lag sem fer í spilun á útvarpsstöðvunum næstu daga. Aðspurður hvort það lag verði leikið í Officera klúbbnum á morgun sagði Stefán það ekki líklegt. Það sé hins vegar ómögulegt að segja hvað gerist þegar það sé farið að hitna svolítið vel í húsinu.
Aldurstakmark í Officera klúbbinn verður 20 og húsið opnar kl. 23 annað kvöld, laugardagskvöld. Það verður hinn geðþekki plötusnúður, DJ Stjáni, sem sér um að hita mannskapinn upp. Forsala miða stendur yfir í Gallerí Keflavík. Þess má að lokum geta, að sætaferðir verða farnar til Keflavíkur að leikslokum.
Sálverjar munu hita upp fyrir Officera-giggið í heimabyggð forsöngvarans, Kópavogi, en sveitin treður upp á Players í kvöld, föstudagskvöld.