Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sagt öllum vinum mínum að koma í heimsókn um leið og landið opnar
Sólborg Guðbrandsdóttir
Sólborg Guðbrandsdóttir skrifar
mánudaginn 11. maí 2020 kl. 14:49

Sagt öllum vinum mínum að koma í heimsókn um leið og landið opnar

Kristjana Dögg Jónsdóttir býr í Aarhus í Danmörku ásamt kærastanum sínum, Aroni Heimissyni. Í haust eru komin þrjú ár síðan hún flutti út. Hún er námsmaður og mun ljúka Bachelor-gráðunni sinni í Innovation & Entrepreneurship núna í byrjun næsta árs, 2021. Með náminu vinnur Kristjana Dögg í hlutastarfi sem grafískur hönnuður og í frítímanum er hún í sjálfboðastarfi hjá TedX Aarhus þar sem hún er partur af teymi sem sér um að finna ræðumenn og þjálfa þá fyrir viðburði.

Til í að troða fjölskyldu og vinum í ferðatöskuna

– Hvernig stóð á því að þú fluttir til útlanda?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Vinkona mín sem flutti til Danmörku tveimur árum á undan mér var mjög dugleg að segja mér hversu ljúft námsmannalífið væri í Danmörku. Ég var á þriðja „gap“-árinu mínu og vissi að mig langaði að mennta mig meira en fannst Ísland mjög takmarkað þegar það kom að menntun. Í byrjun 2017 áttu sér stað miklar breytingar í lífi mínu sem fengu mig til þess að setjast niður og setja mér ný markmið, að flytja erlendis var eitt af þeim. Sjö dögum áður en umsóknarfresturinn rann út sótti ég um námið og fjórum mánuðum seinna var ég komin inn. Þá var ekkert aftur snúið.“

– Saknarðu einhvers frá Íslandi?

„Ohh já, ég á fjölskyldu og vini heima sem ég væri oft til í að troða í ferðatöskuna mína og taka með mér hingað út. Svo má auðvitað ekki gleyma íslenska smjörinu, bjúgum og auðvitað súkkulaðinu. Það er alveg spari að komast í íslenskan mat og góðgæti. Ég verð líka nefna það að ég sakna þess að fara í bíó með pásum.“

– Hverjir eru helstu kostir þess að búa þar sem þú býrð?

„Aarhus er glæsileg borg, hún er stór en ekki of stór líkt og Köben. Hún er full af lífi og gróðri og fallegum byggingum sem gerir þessa borg mjög heimilislega. Það sem ég elska mest við Aarhus er fjölbreytileikinn. Hér er fólk bara eins og það vill vera og það kippir sér enginn upp við það“.

Enginn dagur eins

– Hvernig er hefðbundinn dagur í lífi þínu?

„Ótrúlegt en satt þá er enginn dagur eins en ef ég ætti nú að nefna hefðirnar þá byrja ég alltaf daginn á grænum djús og vinnu fyrir hádegi ef námið leyfir. Ég á það til að læra eftir hádegi og svo fer þetta allt rosalega eftir veðri, ef það er spáð góðu veðri þá ýti ég öllum verkum dagsins á morgnana og kvöldin því jú, ég er sannur Íslendingur og þarf að kaupa mér ís, fara í hjólatúr og senda öllum myndir af sólinni. Kærastinn minn eldar svo vanalega eitthvað ótrúlega gott í kvöldmatinn og kvöldin geta farið í „hygge“ eða lærdóm ef vinnuálagið í skólanum er mikið.“

– Líturðu björtum augum til sumarsins?

„Já, ég geri það. Ég er mjög heppin að vera ein af þeim sem hélt vinnunni og það róar mig helling. Ég hef þurft að aflýsa sumarfríinu mínu sem var mjög sárt en ég er hraust og heil og leyfði mér ekki að syrgja það of lengi. Sumarið verður bara hérna heima í Danmörku. Ég er bjartsýn á gott veður og svo kemur alltaf annað sumar eftir þetta.“

Elska að vinna með fólki

– Hver eru þín áhugamál og hefur ástandið haft áhrif á þau?

„Mitt aðal áhugamál tengist aðalega TedX. Ég elska að vinna með fólki, þjálfa og sjá aðra vaxa og hjálpa þeim að sjá það. Þar sem COVID er í gangi núna þá höfum við þurft að hætta við nokkra viðburði sem var mjög sárt því ég er mikil félagsvera og var farið að hlakka til að taka almennilega þátt í þessari stöðu en við erum með fundi vikulega og erum núna að plana stóra viðburðinn sem hefur verið færður yfir á næsta ár þannig við látum COVID ekki stoppa okkur alveg.“

– Hvað stefnirðu á að gera í sumar?

„Þetta er örugglega óskipulagðasta sumar sem ég hef nokkurn tímann átt. Ég er búin að segja öllum vinum mínum að koma í heimsókn um leið og landið opnar og svo fer það algjörlega eftir vinnunni minni. Þetta er fyrsta sumarið mitt í Aarhus þannig ég ætla leyfa mér að njóta þess að vera hérna heima og kynnast borginni ennþá betur.“

– Hver voru plönin áður en veiran setti strik í reikninginn?

„Ég gaf kærastanum mínum ferð til Köben í jólagjöf til þess að sjá uppistand hjá Trevor Noah. Við ætluðum að eiga yndislega helgi í lok maí sem er núna búið að aflýsa. Einnig ætlaði ég að fara til Spánar með mömmu minni líkt og ég hef gert síðastliðin tvö ár og það var mjög sárt að geta ekki farið en ég er samt mjög þakklát að vera ekki að gifta mig eða halda aðra eins stóra viðburði þannig ég hef ekki mikið til þess að kvarta yfir satt að segja.“

Fólk af asískum uppruna hafi orðið fyrir árásum

– Hvernig hefur COVID-19 verið að hafa áhrif þar sem þú býrð?

„Já, það hefur haft áhrif á okkur líkt og alla í heiminum. Áður fyrr voru strætóarnir alltaf fullir af fólki en núna sérðu varla einn strætó með fleiri en tíu manns. Þegar við fengum fréttirnar að öllum stöðum yrði lokað nema matvörubúðum og svoleiðis var mikill ótti og troðningur í matvörubúðum. Ég hef lesið um að fólk af asískum uppruna hafi orðið fyrir árásum og svo er unga fólkið mjög gjarnt á að halda partý og tekur þessu ástandi ekki alveg nógu alvarlega en ég veit að ríkisvaldið er að reyna að takast á við þetta eins og hægt er.“

– Hvernig hefur tilveran verið hjá þér undanfarnar vikur, hefur margt breyst?

„Að vera svona mikið heima hefur verið áhugavert. Vanalega eyddi ég ekki meira en tveimur heilum dögum heima hjá mér út af námi, vinnu og sjálfboðastarfinu mínu. Það að eyða öllum dögum heima var mjög súrealískt í byrjun en ég var fljót að búa mér til rútínu og lykillinn var bara að passa upp á svefninn. Ég er gjörn á að gera vikuplön, þau hjálpuðu mér að hafa yfirsýn og það róar eirðarleysið. Auðvitað koma dagar sem ég væri til í að hitta fólk og eiga eðlilega rútínu en þökk sé góða veðrinu hér í Danaveldi þá get ég ekki kvartað.“

Ekkert er sjálfsagt

Kristjana Dögg segir að lærdómurinn sem draga megi af heimsfaraldrinum sé hvað ekkert sé sjálfsagt. „Ég er rosalega heppin að geta sagt að það versta sem gerðist hjá mér var að geta ekki farið til Spánar. Það eru ekki allir álíka heppnir. Ég er orðin mun þakklátari en ég var áður. Þetta tímabil kenndi mér að vera meira til staðar fyrir aðra og það að stundum eru erfiðir tímar og fáar lausnir en þá þarf maður bara að hlusta og sýna stuðning fyrir þá sem þurfa. Þetta fékk mig líka til þess að hugsa um heilsuna, hvað það skiptir máli að vera hraustur á svona tímum. Maður á bara einn líkama sem maður þarf alltaf að hugsa vel um, ekki bara stundum.“