Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þriðjudagur 12. júní 2001 kl. 15:39

Sagt hefur það verið um Suðurnesjamenn...

Sjómenn í Grindavík og í Sandgerði héldu Sjómannadaginn hátíðlegan um helgina en hefðbundnum hátíðahöldum í Reykjanesbæ hafði verið aflýst.

...fast þeir sóttu sjóinn
Hátíðin í Grindavík stóð yfir í þrjá daga og hefur hún aldrei verið jafn vel sótt. Dagskráin var fjölbreytt og útvarpsstöðin Bylgjan var með beina útsendingu. Á föstudeginum var haldið sundlaugarpartý fyrir unglingana og á laugardeginum var keppt í kappróðri og boðið upp á skemmtisiglingu. Bílasýning var í gangi báða dagana og sýning á gömlum munum sem tengjast sjómennsku og handverki. Sérstök skemmtun var haldin fyrir börnin í Festi og komu þá margir góðir gestir í heimsókn, m.a. Mikki refur og Lilli klifurmús. Grindvíkurhlaupið fór af stað á sunnudeginum og var þátttakan í því mjög góð. Að sjómannamessu lokinni var stutt afhöfn þar sem minnismerki um Tyrkjaránið var afhjúpað en listamaðurinn er Einar Lárusson. Árni Tryggvason, leikari og trilluútgerðarmaður flutti síðan hátíðarræðu.

...og sækja hann enn
Hátíðahöldin í Sandgerði fóru fram í blíðskaparveðri og fjöldi fólks fylgdist með dagskránni. Auk hefðbundinna dagskráratriða var boðið upp á siglingu með hvalaskoðunarskipinu Moby Dick.
Magnús Ólafsson afhenti vegglistaverkið Útnesjamenn eftir Einar Marinó Magnússon í safnaðarheimilinu. Verkið er til minningar um hjónin frá Nýlendu, Magnús Bjarna Hákonarson og Guðrúnu Hansínu Steingrímsdóttur.
Páll Jósteinsson, sjómaður og Emma Jóhánnsdóttir sjómannskona, voru heiðruð í tilefni dagsins og Hjörtur Jóhannsson skipstjóri afhenti Björgunarsveitinni Sigurvon 150 þúsund krónur úr minningarsjóði Kristjáns Ingibergssonar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024