Sagt hefur það verið um Suðurnesjamenn
Einhverjir hafa sjálfsagt rekið augun í sjónvarpsþættina Reykjanesið - Upplifun við bæjardyrnar, sem hafa verið á dagskrá Ríkissjónvarpsins undanfarna tvo þriðjudaga. Þar fer Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur um Reykjanesið og fræðir áhorfendur um náttúru og sögu svæðisins. Undirskrift þáttanna er sú að margir hreinlega gleymi Reykjanesskaganum þegar hugað er að upplifunarferðum. Ég held að flestir geti verið sammála því. Hér á skaganum er sagan við hvert fótmál og náttúruperlur leynast víða.
Í þættinum á þriðjudaginn var Grindavík sótt heim og saga bæjarfélagsins rakin í stuttu máli. Áhersla hefur verið lögð á umfjöllun um sjávarútveginn í þáttunum, enda hefur saga skagans litast af sjávarháttum. Ari Trausti nær virkilega vel að koma andrúmsloftinu á svæðinu til skila og viðmælendur hans hafa frá mörgu fróðlegu að segja.
Þættirnir ættu að vera við allra hæfi enda fróðlegir og áhugaverðir. Ég leyfi mér að leggja til að þættirnir verði til sýninga fyrir grunnskólabörn hérna á Reykjanesskaganum. Sjálfur verð ég að viðurkenna að þekking mín á heimaslóðum mínum er ekki beint til fyrirmyndar, en komandi kynslóð getur sannarlega haft gagn af þáttunum. Einnig við sem eldri erum.
Það eru orð að sönnu að oft þarf ekki að leita langt yfir skammt. Við sem hér búum á Reykjanesskaga getum hæglega notið nánast alls þess besta sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða. Undanfarin ár hef ég sjálfur verið nokkuð duglegur að taka mér bíltúra um svæðið og sífellt uppgvöta ég nýja og heillandi staði. Einnig sést hvað heimaslóðir okkar eru einstakar þegar maður ferðast hér um með útlendinga, þeir gjörsamlega falla í stafi yfir hlutum sem okkur þykja hversdagslegir. Ég mæli með því að fólk taki sér tíma í að skoða Reykjanesið þegar fjölskyldan fer næsta ísrúnt. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Eldra fólkið getur notið útivistar og hreyfingar á meðan ungviðið nær sér í frumlegri Instagram myndir en vanalega.
Eins hefur leiðsögumaðurinn Rannveig Garðarsdóttir staðið fyrir skipulögðum gönguferðum um Reykjanesið undanfarin sex ár. Nanný, eins og hún er kölluð er hafsjór af fróðleik um svæðið og hefur afar vel verið látið af gönguferðunum hennar þar sem útivist, hreyfing og lærdómur rennur saman í eitt.
Eyþór Sæmundsson, blaðamaður Víkurfrétta
Mynd: Ari Trausti kom við í Valborgargjá. Undirritaður fékk sér sundsprett þar á dögunum en skólasund fór þar fram fyrir börn í Grindavík snemma á 20. öld.