Sagði upp vinnunni og opnar barnafataverslun
Njarðvíkingurinn Margrét Jóna ætlar í hönnunarnám meðfram fyrirtækjarekstri
Margrét Jóna Þórhallsdóttir er Njarðvíkingur, þriggja barna móðir og þangað til nýlega var hún myndmenntakennari á leikskóla í Kópavogi. Mörgum finnst eflaust erfitt að breyta til þegar lífið er komið í fastar skorður en nýverið sagði hún upp vinnunni, opnaði barnafataverslunina Appaman ásamt manni sínum og öðru pari, en að auki ætlar hún að hefja nám í hönnun í haust.
Margrét hefur alltaf haft áhuga á hönnun og hannaði hún Appaman búðina frá A-Ö, innréttaði og málaði. „Mig langaði alltaf að læra hönnun eða myndlist en á sínum tíma fannst mér sniðugara að fara í praktískara nám. Ég fór því í Kennaraháskólann og lærði grunnskólakennarann. Ég endaði á því að vinna á leikskóla sem myndmenntakennari í nokkur ár og fannst það frábært en fann alltaf að mig langaði að skapa meira,“ segir Margrét. Þegar eiginmaður Margrétar fékk þá flugu í höfuðið ásamt félaga sínum að opna barnafataverslun, fór Margrét að hugsa hvort hún ætti ekki að elta gamlan draum, fyrst fjölskyldan væri hvort sem er að breyta til og fara út í fyrirtækjarekstur. Stefnan er því tekin á hönnunarnám við Tækniskólann í haust og í kjölfarið langar Margréti að sækja um í vöruhönnunarnám við Listaháskóla Íslands.
Barnafataverslunin Appaman, sem staðsett er í Bæjarlind 6 í Kópavogi, var stofnuð af norskum hönnuði en er þó staðsett í Bandaríkjunum þar sem búðin hefur notið mikilla vinsælda og er komin í hvert einasta fylki þar, en merkið er selt út um allan heim. Fræga fólkið sést ósjaldan með börnin sín í Appaman fötum eins og sést á Facebook síðu Appaman á Íslandi. „Þetta eru gæðaföt en við reynum að hafa sanngjarnt verð, og þetta er ekki miklu dýrara en í Bandaríkjunum. Það er mikið af flottum strákafötum, t.d. erum við með jakkaföt og slaufur á drengi.“
Margrét hannaði búðina þannig að hún yrði litrík og barnvæn.