Sagan við hvert fótmál

Reynir Ingibjartsson hefur áður gefið út tvær bækur um gönguleiðir á höfuðborgarsvæðinu og í Hvalfirði. Nú varð Reykjanesið fyrir valinu og þar fjallar Reynir um 25 skemmtilegar og fallegar gönguleiðir eins og vanalega en Reynir spjallaði við Víkurfréttir um Reykjanesið og útivist.

Bækur hans hafa notið mikilla vinsælda og setið á metsölulistum enda virðist vera mikil vakning í alls kyns útivist og hreyfingu henni tengdri um þessar mundir. Í nýju bók sinni sem kom út í júní lýsir Reynir 25 gönguleiðum á Reykjanesskaga en svæðið teygir sig frá Reykjanestá að Þrengslavegi og Þorlákshöfn. Leiðirnar eru ýmist við ströndina eða inn til landsins og mjög fjölbreyttar. Oftast er leiðin hringur, að jafnaði 3-6 kílómetra langur og tekur um eina til tvær klukkustundir að ganga hann þannig að það ætti ekki að reynast mönnum ofviða. Að jafnaði er stutt á göngustað frá þéttbýlissvæðunum á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og á vestanverðu Suðurlandi. Þessar gönguleiðir eru því sannarlega við bæjarvegginn og landið og sagan við hvert fótmál segir Reynir.

Reynir Ingibjartsson er fæddur árið 1941 og uppalinn í Hraunholtum í Kolbeinsstaðahreppi. Hann hefur lengstan sinn aldur búið á höfuðborgarsvæðinu og starfaði m.a. lengi sem formaður Landssambands samvinnustarfsmanna og beitti sér auk þess fyrir stofnun Búmanna og Búseta sem bæði eru húsnæðissamvinnufélög.

Reynir hefur leitað uppi marga forvitnilega staði sem ekki eru öllum kunnir en sjálfur segist hann hafa gengið hverja leið a.m.k. tvívegis. Reynir segist jafnan hegða sér eins og landkönnuður á ferðum sínum. Hann er á því að víða sé falin fegurð hér á svæðinu og í raun séu allt of fáir sem þekkja fegurðina á skaganum. Margt leynist í hraununum og við strendurnar, t.d. minjar um horfna búskaparhætti og sjósókn til forna. En það er ekki síst einstök jarðfræði Reykjanesskagans sem vekur forvitni. Hér má skoða sköpunarverk náttúrunnar milliliðalaust.

Með hinum nýja Suðurstrandarvegi opnaðist greið leið milli Grindavíkur og Þorlákshafnar og hið sama má segja um nýlega leið milli Sandgerðis og Hafna hjá Básendum að sögn Reynis. Margar akstursleiðir eru því í boði á Reykjanesskaganum og þá er um að gera að bregða sér út af þeim og finna gönguleið við hæfi.

Kort með fjölda örnefna fylgir hverjum gönguhring, ásamt leiðarlýsingu og myndum af því sem fyrir augu ber sem Reynir sjálfur tók. Nálgast má bók Reynis m.a. í Nettó verslununum og í bókaverslunum.