Sagan verður undirtónninn
Gott pláss í Bryggjuhúsnu og hópar sérstaklega velkomnir.
Á dögunum opnaði Byggðasafn Suðurnesja glæsilegt Bryggjuhús í Duushúsum í Reykjanesbæ. Á efri hæð og í risi hússins mun fara fram sýning næstu 10 árin. Sagnfræðingurinn og safnafræðingurinn Sigrún Ásta Jónsdóttir er safnstjóri Byggðasafnsins.
Grunnsýning með áherslubreytingum
„Ákveðið var að miða sýninguna við tíu ár til að setja eitthvað mark. Þar sem við vorum áður miðuðum við alltaf við tvö til þrjú ár fyrir hverja sýningu. Meiningin er þess vegna að nýja sýningin muni vara lengi,“ segir Sigrún Ásta. Sýningin verði söm í grunninn en með einhverjum smávægilegum áherslubreytingum því nægt rými verður til þess að bæta við. „Byggðasafnið er staðurinn þar sem við gerum ráð fyrir að vera með allar okkar grunnsýningar og þá reynum við að segja sögu svæðisins vítt og breitt. Við hugsum þetta þannig að hægt verði að ganga að sýningunni sem slíkri. Hér er gott pláss á milli svæða og hluta og fínt t.d. fyrir hópa að koma eða einhverja sem vilja vera út af fyrir sig.“
Átti að vera tímabilaskipt eins og Rokksafnið
Fyrsta hugmyndin hafi verið að hafa sýninguna með tímabilaskiptingu eins og á Rokksafninu. „Húsnæðið kallar meira á að það sé ekki verið að hólfa of mikið niður en láta frekar flæða. Sagan slík verði undirtónninn. Sýningin vex inn í húsið og húsið á að njóta sín líka í sínum hráleika,“ segir Sigrún Ásta.
Eldra fólk í meirihluta gefenda
Á sýningunni verður sérstök fjöl með hlutum sem lögð verður áhersla á hverju sinni. Sigrún Ásta segir safnið eiga mikið af munum sem erfitt hafi verið að velja úr. „Starfsmenn Byggðasafnsins, sýningahönnuðir velja ásamt mér hluti og áherslur í safnið. Alltaf er eitthvað um að fólk gefi hluti og sumir vilja skoða hluti sem voru gefnir fyrir löngu síðan.“ Mest sé um að ræða fólk sem sé komið á efri ár og líka yngra fólk sem komi með hluti úr dánarbúum eða hafi fundið hluti þegar það flutti í gamalt húsnæði. „Eldra fólk gefur úr eigin búi sem það vill að komist á góðan stað til varðveislu. Svo koma einhverjir með myndir úr starfsemi, ferðum og öðru sem endurspeglar mannlífið. Myndir eru merkilegar heimildir og við höfum vakið athygli á þeim á Facebooksíðu safnsins,“ segir Sigrún Ásta, sem segist sannarlega vera í draumastarfinu. „Ég hef unnið á söfnum í 22 ár, þar af hér í 13 ár.“