„Sagan hverfur ef hús er rifið“
Skráir sögu elstu húsa Grindavíkur.
Þegar Sigurður Ágústsson var átta ára átti hann myndavél og tók myndir af öllu mögulegu, m.a. af húsum og mannlífinu í Grindavík. Hann kenndi ljósmyndun í mörg ár. Sem fyrrum yfirlögregluþjónn og fulltrúi í 20 ár í skipulags- og byggingarnefnd þekkir hann bæinn sinn ansi vel. Það mætti því segja að hann hafi fengið nokkurs konar draumaverkefni í hendurnar við að skrá sögu elstu húsa Grindavíkur.
Sjávarhólar, gömul.
Sjávarhólar nú.
Varðveislugildi hvers húss metið
„Verkefnið snýst um það að Grindavíkurbær fékk beiðni frá Húsafriðunarnefnd um að skrá hús sem eru byggð um 1950 og eldri. Nokkur sveitarfélög hafa lokið þessu. Við erum fjögur að skrá úr hverju húsin voru byggð, hvenær og ef vitað er, hver byggði húsin og hverjir voru fyrstu íbúarnir. Síðan er verið að grafa upp myndir af húsunum eins og þau litu út í upphafi og svo eins og þau líta út í dag,“ segir Sigurður. Þau hafi aflað gagna og svo sé metið varðveislugildi hvers húss fyrir sig út frá upprunalegu útliti. Fá húsanna virðast hafa varðveislugildi og flest séu nær óþekkjanleg. Þá sé búið í öllum elstu húsunum sem enn eru uppistandandi.
Görðum, áður.
Görðum, ný.
Ýmislegt gert til að stækka húsin
Sigurður segir að flest hafi húsin verið í samskonar stíl, timburhús með risi en mislöng. Þau sem ekki hafi breyst hafi ekki verið mikið við haldið. „Helstu breytingar á húsum eru koparþak, bárujárnsklæðning, forskölun og kannski bílskúr bætt við. Í einhverju tilfelli voru notaðir til byggingar bitar úr skipi sem strandaði úti á Stapa. Það er eins og að það hafi verið byggt í kringum húsin og rifnir niður veggir til að stækka rýmin. Hús sem eru lítið breytt er bara búið að klæða að utan. Einstaka hús voru alveg rifin.“ Sigurður segist hafa verið einn þeirra sem var svekktur yfir því að hús voru rifin. „Þá hverfur sagan með. Það ólust upp allt upp í 20 börn í einu húsi.“
Gesthús, áður.
Gesthús, ný.
60-70 hús í fyrstu atrennu
Spurður um hvað hafi verið mest gefandi við að vinna þetta verkefni segist Sigurður alltaf hafa verið forvitinn um sögu Grindavíkur. „Ég er fæddur og uppalinn hérna. Maður fær miklu meiri innsýn inn í mannlífið eins og það var hérna með því að tala við fjölda eldra fólks sem jafnvel var fætt í húsunum og getur sagt manni sitthvað um lífið eins og það var þá.“ Allar upplýsingar sem Sigurður og félagar hans hafa aflað eru skráðar skipulega í rafrænt kerfi sem var gert sérstaklega af Húsafriðunarnefnd fyrir þetta verkefni. „Þetta eru um 60-70 hús í fyrstu atrennu. Bygginganefndin var búin að afmarka svæðið sem er frá gatnamótum Víkurbrautar og Ásabrautar og svo suður. Þar er elsti hluti bæjarins. Ég skráði nánast öll húsin því við vorum ekki með á hreinu fjöldann þegar við byrjuðum,“ segir Sigurður og bætir við að mikið sé spurt um hvort allar þessar upplýsingar verði ekki gefnar út.
Baldurshagi, áður.
Baldurshagi, nú.
Vesturbær, áður.
Vesturbær, nú.
VF/Olga Björt