Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Sagan af Jóa gerist í Keflavík
Þröstur Jóhannesson er höfundur bókarinnar Sagan af Jóa. VF-mynd: Hilmar Bragi
Mánudagur 2. desember 2013 kl. 13:03

Sagan af Jóa gerist í Keflavík

„Sagan fjallar um Jóa, sem er 11 ára gamall strákur, og býr við bágar heimilisaðstæður. Pabbi hans er mikill drykkjumaður og það setur svip sinn á líf Jóa. Jói er hins vegar með mikið hugarflug og fer inn í hugarheima sína til að lifa af hversdagsleikann. Þetta er því tveggja heima saga. Í hugarheimum hittir Jói fyrir tvo sjóræningja, þá Hafliða tvö nef og Sigurð fót. Jói fer með þessum kumpánum í táknræna ferð til að bjarga pabba sínum. Þegar líður á bókina fara heimarnir tveir að renna saman og undir lokin sameinast þeir“. Svona lýsir Keflvíkingurinn Þröstur Jóhannesson Sögunni af Jóa sem komin er út. Þetta er fyrsta bók Þrastar og er skrifuð sem barna- og unglingasaga. Bókin er tæpar 200 síður og er myndskreytt af Pétri Guðmundssyni, sem er listamaður á Ísafirði.

Eins og svo oft vill verða í uppeldi barna þá byrja foreldrar að semja sögur fyrir börnin sem sagðar eru fyrir svefninn. Þannig varð Sagan af Jóa til. Hann hefur sagt börnunum sínum þessa sögu frá því þau voru lítil. Alltaf hefur verið að bætast í söguna og elsti sonur Þrastar er kominn yfir tvítugt og getur nú í fyrsta sinn lesið söguna í heild sinni. Hún er um 11 ára strák en stelpa kemur einnig fyrir í sögunni. Þröstur segir að bókin sé ekkert frekar strákabók. Sagan sé hugsuð fyrir bæði kynin. Þá er sögusvið bókarinnar úr Keflavík þó svo að Keflavík sé ekki nefnd á nafn. Þeir sem þekkja til séu fljótir að átta sig á sögusviðinu.

Síðustu daga hefur Þröstur verið að lesa úr sögunni í skólum á Suðurnesjum. Þannig hefur hann m.a. heimsótt sína gömlu skóla, Myllubakkaskóla og Holtaskóla, og fengið góðar viðtökur. Allir hafa hlustað af áhuga. Bókin er komin í bókabúðir og er einnig til sölu í Nettó.

Þegar bókin er keypt fylgir einnig rafbókarútgáfa sem má lesa í símum og spjaldtölvum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024