Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 23. september 1999 kl. 14:44

SAGA KEFLAVÍKUR 1920 - 1949

Þá höfum við fengið í hendur þriðju bókina um sögu bæjarins okkar. Ég þykist hafa nokkurn áhuga á þessu málum og mig hlakkaði til að sjá hvernig til tækist með þennan hluta sögunnar. Mikill fengur var af fyrri bókunum og ekki hafa þær verið umdeildar, enda fáir í stakk búnir til þess að dæma um efnistökin. Nú á ég von á að reyndin verði önnur, þegar fjallað er um menn og málefni sem við mörg þekkjum af eigin raun eða frá fyrstu hendi. Ritnefnd og söguritara er vissulega vandi á höndum að velja og hafna, hverju ber að halda til haga og hverju má sleppa, þegar úr nógu er að moða af heimildum. Vel hefir tekist um margt, en því miður verð ég að lýsa þeirri skoðun minni að alltof víða er sleppt mikilvægum hlutum sem áttu stóran hlut í að móta þá sögu, sem á að vera segja og talsvert er um nafnarugl. Flest af þessu hefði mátt lagfæra með því að láta fleiri lesa próarkir og fá með því ábendingar. Mér er vel ljóst að ekki verður gert svo öllum líki, en hér finnst mér vantar alltof mikið til þess að næstu kynslóðir fái raunhæfa mynd af því hvernig þetta samfélag okkar þróaðist á þessum miklu umbrotatímum. Ég vil nefna nokkur dæmi til stuðnings þessu áliti mínu, en þau eru ekki tæmandi. Þótt ekki hafi allir verið sáttir við Sparisjóðinn í Keflavík á stundum, þá held ég að ekki verði deilt um það að saga Sparisjóðsins og uppbyggingar í Keflavík er mikið samofin. Sparisjóðurinn hefir t.d. lánað meira eða minna í nánast hvert einasta hús sem hér hefir verið byggt, svo eitthvað sé nefnt. Ekki finnst þó höfundum ástæða til þess að nefna Sparisjóðinn, að öðru leiti en því að hann hafi verið rekinn með tapi í fyrsta sinn 1936, reyndar 1937 líka. Mikið er fjallað um stofnun V.S.F.K., 1931 og 1932, enda var hún æði söguleg. Að stofnun félagsins komu margir mætir menn, nokkrir eru réttilega nafngreindir. En ekki er þess getið að árið 1935 tók Ragnar Guðleifsson að sér formensku í félaginu og að upp úr því kom félagið að flestum framfaramál í hreppnum, allan þann tíma sem þessi bók fjallar um. Að vísu er nokkuð sagt frá byggingju samkomuhúsins, Verkó, en lítið virðist stuðst við heimildir, þótt nægar séu til. Við hvað er t.d. átt þar sem segir: “ Á pappírunum átti h.f. Félagshús samkomuhúsið “.Fróðlegt væri að heyra skýringu. Verkalýðsfélagið var langstærsti eigandinn en einnig voru um 70 félagar þess hluthafar, það ég best veit fullkomlega löglega. Alltaf stóð félagið í skilum, þótt húsið væri oft leigt fyrir lítið til styrktar góðum málefnum eins og Unglingaskólanum ofl. Talsvert er fjallað um stúkurnar. Drykkjuskap þorpsbúa eru gerð allgóð skil. Nokkrir bindindisfrömuðir eru nafngreindir, en Jónína Guðjónsdóttir frá Framnesi, er ekki nefnd á naf. Hún stjórnaði þó öflugu bindindis- starfi í þágu barna og unglinga hér, ásamt Guðlaugu systur sinni, mest af þeim tíma sem um er fjallað í bókinni. Dráttarbraut Keflavíkur eru gerð all góð skil, sem vert er, en hefði þó mátt vera betur vandað til. T.d. segir: „Nýsmíði hófst um 1940“. Það rétta er að strax eftir stofnun DK, 1935, var hafin smíði á 24 tonna bát, og hann sjósettur árið eftir. Eigendur voru Ólafur Bjarnason, Elías Þorsteinsson ofl. Hann hlaut nafnið Sæfari II. Þetta var stór viðburður, sem að sjálfsögðu hefði átt að geta í Sögu Keflavíkur. Ég ætla að við öll sem nutum handleiðslu séra Eiríks Brynjólfssonar munum telja að störfum hans séu ekki gerð þau skil sem vert væri. Að vísu er sagt frá að hann hafi veitt Unglingaskólanum forstöðu. Eiríkur gerði svo mikið meira en það og allt án sérstakra launa. Á bls. 407 er birt mynd, sem sögð er af skólabörnum í Keflavík. Þessi mynd er af öllum fermingabörnum, á Suðurnesjum 1938. Tekin á Laugarvatni. Um árabil fór séra Eiríkur með fermingarbörnin þangað í sundkennslu. Ekki er að finna sérstaka mynd af séra Eiríki í bókinni, hann sést þó á tveimur hópmyndum, á annari er getið um hann. Af tveimur mönnum er heilsíðumynd, önnur af Óskari Halldórssyni, sem byggði höfnina, hin af Lárusi Salómannssyni, sem var hér í eitt ár. Söguritari virðist hrifnari af Lárusi en Keflvíkingar almennt voru, það ég best man. Meðal þess sem ég sakna er: Að enn vitum við ekki hvenær skólaganga 7 ára barna komst til framkvæmda í Keflavík. Að útgerðum eru lítil skil gerð, Ólafur S. Lárusson er aðeins nefndur af því hann sótti um nýsköpunartogara, hann gerði nú fleyra. Ekki er Loftur Loftsson nendur, einn umsvifamesti fiskverkandi, síldarsaltandi og útgerðarmaður hér í mörg ár, svo er um fleiri. Að ekkert er sagt frá Olíusamlagi Keflavíkur og nágrennis, þeim merka félagsskap. Samlagið veitti meiri og betri þjónustu en þekktist annars staðar, það seldi meginpartinn af allri olíu hér, bæði til báta og húsa. Að í Keflavíkurhreppi fóru menn að kynda með olíu, á undan öðrum landsmönnum. Fyrirmyndin fékst af Vellinum, eins ofl. Að kynda með olíu í stað kola var ein byltingin á þessum tíma. Hér hófst smíði katla fyrir olíukyndingu, sem varð nánast sérstök iðn hér. Vélsm. Björns Magnússonar var lang umsvifamest í þessari grein og seldi katla um allt land. Auk Björns smíðuðu nokkrir aðrir katla fyrir olíukyndingu og breittu kolakötlum í olíukyndingu. Lesa má milli línanna að framtak hreppsnefnda hér hefur verið í lámarki fram á stríð. Stríðinu fylgdu stóraukin umsvif á öllum sviðum, en fleyra kom til. 1942 buðu nokkrir útgerðarmenn fram sér lista og komu einum manni í hreppsnefnd. Á þetta framboð er ekki minnst, þótt ljós sé að það flýtti mikið fyrir framförum í hreppnum. Að lokum; mér sýnist útlit og frágangur á bókinni eins og best gerist en próarkalestur virðist hafa farist fyrir að mestu, nema þá á málinu. Ólafur Björnsson.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024