Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Saga íslenskra slökkviliða á einstöku safni í Reykjanesbæ
Sigurður Lárus og Ingvar Georg á nýja safninu. 
Myndin var tekin við opnun safnsins vorið 2013.
Föstudagur 8. mars 2019 kl. 10:30

Saga íslenskra slökkviliða á einstöku safni í Reykjanesbæ

Slökkviliðsminjasafn Íslands opið almenningi á safnahelgi

Slökkviliðsminjasafn opnaði á vormánuðum 2013 í safnamiðstöðinni í Ramma á Fitjum í Reykjanesbæ. Það er félag áhugamanna um sögu slökkviliða á Íslandi sem stendur að baki safninu. Safnið er hins vegar starfrækt undir hatti Byggðasafns Reykjanesbæjar og er í húsnæði byggðasafnsins á Fitjum.

Það eru slökkviliðsmennirnir Sigurður Lárus Fossberg og Ingvar Georg Georgsson sem eiga heiðurinn að safninu. Hugmyndin varð til þegar Sigurði var falið það verkefni að skrásetja alla ameríska slökkvibíla af árgerðum 1940 til 1980 vegna sögu þessara slökkvibíla á Norðurlöndum. Sú vinna var mikil og eitt leiddi af öðru eins og sjá mátti í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta í síðustu viku þar sem rætt var við Ingvar um safnið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eftir að Sigurður Lárus ræddi við Ingvar Georg fór hugmyndin á fullt og með stuðningi slökkvistjóranna Jóns Guðlaugssonar hjá Brunavörnum Suðurnesja og Jóns Viðars Matthíassonar hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins var hugmyndin mótuð og kynnt fyrir bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ og Byggðasafni Reykjanesbæjar. Yfirvöld tóku vel í hugmyndina og safnið varð að veruleika.

Hér á landi er til fjöldi slökkvibíla og annarra tækja frá fyrri tíð og er aðeins lítið brot til sýnis á slökkviliðsminjasafninu. Ástand gömlu slökkvibílanna sem til eru í landinu er líka misjafnt. Mikið er til af bílum í góðu ástandi en einnig eru margir ekki sýningarhæfir og geymdir við slæmar aðstæður víða um land.

Á sýningunni á Fitjum eru aðeins sýningarhæfir bílar og reynt að hafa bílakostinn fjölbreyttan. Á sýningunni er m.a. fyrsti slökkvibíll Slökkviliðs Keflavíkur, Ford af árgerðinni 1947. Hann var endurbyggður frá grunni en slökkviliðsmaðurinn Davíð Heimisson á mestan heiður af þeirri vinnu.

Slökkviliðsminjasafnið í Ramma á Fitjum verður opið á Safnahelgi á Suðurnesjum. Á útisvæði við safnið verða fleiri slökkvibílar frá Brunavörnum Suðurnesja og aldrei að vita nema slökkviliðshundurinn láti sjá sig og heilsi upp á yngsta fólkið. Nánar má kynna sér Slökkviliðsminjasafnið í dagskrá Safnahelgar á Suðurnesjum í Víkurfréttum í dag.