Safnar fyrir háskólanámi með hringferð
Þessa dagana er harmonikuleikarinn Jón Þorsteinn Reynisson í hringferð um landið, og mun halda tónleika í Ytri-Njarðvíkurkirkju 11. maí kl. 20.
Þessi tónleikaferð er farin að því tilefni að í haust mun Jón taka næsta skref í tónlistarnáminu og halda til Danmerkur þar sem að hann hefur framhaldsnám á harmoniku við Konunglega Tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn. Þar mun hann verða nemandi Norðmannsins Geirs Draugsvoll, sem er Íslendingum að góðu kunnur fyrir snilldarlegan harmonikuleik.
Einnig er Jón að undirbúa kaup á nýrri harmoniku, og er ferðin því fjáröflun fyrir hvort tveggja. Jón hefur komið upp vefsíðu sem heldur utan um allar helstu upplýsingarnar um tónleikaferðina. Slóðin á síðuna er www.jonthorsteinn.com.
Efnisskrá Jóns á tónleikunum er fjölbreytt og skemmtileg. Hann mun leika þekkt verk eftir tónskáld eins og Mozart, Sibelius, Vivaldi og Rachmaninov. Á tónleikunum mun hann því leitast við að sýna sem mest af því sem harmonikan sem hljóðfæri hefur upp á að bjóða, og hversu fjölhæf hún er.