Safnahelgi á Suðurnesjum haldin í annað sinn um helgina
Söfn á Suðurnesjum hafa tekið höndum saman um að bjóða upp á sameiginlega dagskrá í annað sinn helgina 13. - 14. mars n.k. undir yfirskriftinni „Safnahelgi á Suðurnesjum".
Söfn, setur og sýningar á svæðinu eru mörg og fjölbreytt og því verður margt á döfinni.
Fulltrúar allra sveitarfélaganna fimm á Suðurnesjum hafa unnið sameiginlega að undirbúningi dagskrárinnar og er verkefnið stutt af Menningarráði Suðurnesja, Sparisjóði Keflavíkur og Ferðamálasamtökum Suðurnesja auk framlags sveitarfélaganna sjálfra.
Í dagskrá safnahelgarinnar kennir ýmissa grasa. Tónleikar, sýningar, leiðsagnir og margs konar uppákomur. Humarsúpa, saltfiskur og annað góðgæti verður í boði auk þess sem haldin verður uppskriftarkeppni á saltfiskréttum. Sjómannavalsar, rokk og ról og harmonikkutónlist. Skessan í hellinum, Heimskautin heilla og Sköpun alheimsins svo fátt eitt sé nefnt.
Í boði er sem sagt mjög fjölbreytt menningardagskrá ásamt freistandi tilboðum um veitingar og afþreyingu fyrir alla fjölskylduna.