Safnahelgi á Suðurnesjum 25.–27. október
Margt verður um að vera helgina 25.–27. október næstkomandi. þegar Safnahelgi á Suðurnesjum fer fram. Þá bjóða sveitarfélögin á Suðurnesjum landsmönnum í heimsókn til að skoða fjölbreytta flóru safna, setra og sýninga á Suðurnesjum þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Alla jafna hefur Safnahelgin verið haldin í mars en í ljósi aðstæðna sem uppi voru í Grindavík í byrjun árs var tekin ákvörðun um að fresta viðburðinum fram í október. Enn er ekki ljóst hvort opið verður í Grindavík á Safnahelginni en vonir eru bundnar við að það gæti orðið.
Sérstakur opnunarviðburður Safnahelgar verður haldinn í nýrri upplýsinga-, fræðslu- og þjónustuaðstöðu við Reykjanesvita á suðvestanverðu Reykjanesi þriðjudaginn 22. október kl. 12. Það er Guðný Birna Guðmundsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, sem opnar safnahelgina formlega og djassbandið HAG tríó flytur ljúfa tóna fyrir viðstadda.
Alla dagskrá má nálgast á vef safnahelgar, safnahelgi.is, en meðal dagskrárliða eru tónleikar með hljómsveitinni Lón, fjölskyldusamvera og smiðjur, leiðsagnir, frábærar list- og sögusýningar ásamt því að einkasafnarar opna sýningar sínar. Fulltrúar sveitarfélaganna á Suðurnesjum hafa unnið sameiginlega að undirbúningi dagskrárinnar og er verkefnið stutt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.
Aðgangur að Safnahelginni er ókeypis og er fólk sérstaklega hvatt til þess að taka fjölskylduna með sér á rúntinn og skoða það sem söfn, setur og sýningar á Suðurnesjum hafa upp á að bjóða.