Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Safna fyrir klifurgrind í tilefni afmælis foreldrafélags Myllubakkaskóla
Sunnudagur 1. júlí 2018 kl. 06:00

Safna fyrir klifurgrind í tilefni afmælis foreldrafélags Myllubakkaskóla

Foreldrafélag Myllubakkaskóla stendur nú fyrir söfnun fyrir klifurgrind fyrir utan skólann, söfnunin gengur vel en það var foreldri barns við skólann sem hóf söfnunina, foreldrafélaginu leist það vel á hugmyndina að það ákvað að slást í för í söfnuninni. Hjörleifur Þór Hannesson, formaður foreldrafélagsins, og Gunnhildur Þórðardóttir, ritari, ræddu við Víkurfréttir á dögunum um söfnunina.
 

Foreldri hóf söfnunina
Eins og áður hefur komið fram þá var foreldri sem hóf söfnunina en klifurgrind eins og sú sem verið er að safna fyrir er staðsett í Njarðvík. „Honum fannst það synd að vera að keyra börnunum sínum í Njarðvík þegar þau sækja skóla í Myllubakka. Hann fór því af stað í nokkur fyrirtæki til að kanna hvort þau væru til í að styðja og styrkja, því var tekið vel en hann er eins og aðrir í vinnu og getur því ekki sinnt því hundrað prósent að sækja styrki. Það er magnað að einstaklingur hafi lagt þessa vinnu á sig, það er honum að þakka að þessi vinna er farin af stað og við erum að sjá að þetta verði að veruleika,“ segir Hjörleifur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Foreldrafélagið vildi gera eitthvað fyrir nemendur skólans í tilefni af fjörtíu ára afmæli félagsins en þá höfðu þau heyrt um þessa söfnun. „Svona klifurgrind kostar rúmar tvær milljónir en við höfum verið að leita til fyrirtækja og einstaklinga og það eru frjáls framlög sem hafa skilað sér, við höfum einnig sótt um styrki og bíðum eftir svörum við þeim,“ segir Hjörleifur.  

Setning Ljósanætur við Myllubakkaskóla

„Leiksvæðið við Myllubakkaskóla er mikið sótt af öllum bæjarbúum, ekki bara þeim sem búa í nágrenni við hann eða stunda nám við hann,“ segir Gunnhildur.

Ljósanótt er sett með pompi og prakt við Myllybakkaskóla og það er mikið líf og fjör við skólann þá. „Fólk sækir einnig mikið í það að koma á þetta svæði með börnin sín og leiksvæðið er gott en það er kannski meira fyrir yngri hópana og þetta gæti jafnvel nýst fyrir leikfimi,“ segir Hjörleifur. Þá segir Gunnhildur að klifurgrindin gæti einnig nýst til útikennslu.

Hjörleifur segir að það væri algjör draumur að koma grindinni upp í haust en hann geri sér grein fyrir því að upphæðin sem hún kosti sé alvöru upphæð. „Okkur brá svolítið þegar við vissum hvað hún kostaði. En þetta er öryggisstaðlað sem tryggir fullkomlega öryggi barnanna.“

„Grindin er stór en það er stór lóð við skólann sem höndlar það alveg. Hún er mjög flott og auðvelt að klifra í henni fyrir krakkana. Við erum íþróttabær og heilsueflandi samfélag og þetta er akkúrat í anda þess,“ segir Gunnhildur að lokum.

Þeir sem vilja styrkja verkefnið er bent á söfnunarreikning foreldrafélagsins:
 

0121-26-4397

Kt: 430197-3129