Sælgæti sem þú færð ekki samviskubit yfir
Frístundin
„Þegar ég var lítil hafði ég mikinn áhuga á að elda og baka og fannst fátt skemmtilegra en að hjálpa til í eldhúsinu. Við fjölskyldan höfum alltaf lagt mikið upp úr því að borða góðan mat og því snúast margar af æskuminningum mínum um mat,“ segir Stella Einarsdóttir, en hún er uppeldis- og menntunarfræðingur og vinnur sem kennari í Heiðarskóla. Stella hefur eytt miklum tíma utan vinnu í að búa til heilsusamlegt múslí sem hefur slegið í gegn hjá hennar nánustu.
„Þegar ég byrjaði í framhaldsskóla fór ég að prófa mig áfram í eldhúsinu og prófaði meðal annars að gera múslí. Það var miklu betra en það sem við vorum að kaupa út í búð svo eftirspurnin á heimilinu varð þannig að ég fór að gera múslí reglulega,“ segir Stella. Hún hafði prófað ótal uppskriftir af músli en fannst alltaf eitthvað vanta og segir hugmyndina að uppskrift sinni hafa sprottið frá því. „Mér fannst þær aldrei vera nógu stökkar eða innihéldu mikinn sykur. Í gegnum það ferli brenndust ófáir skammtar og margt sem ég prófaði var alls ekki gott – en þegar ég prófaði að nota þessi hráefni saman þá „small“ eitthvað. Ég hef gert þessa uppskrift núna í nokkur ár og hef séð til þess að það sé til á heimilinu vegna mikillar eftirspurnar,“ segir Stella og bætir við: „Við í fjölskyldunni minni borðum þetta á hverjum morgni út á hafragraut eða jógúrt. Þegar ég vil gera vel við mig þá geri ég heimagerða acai-skál og strái múslíinu út á.“
Eins og sælgæti
Þegar hún var búin að fullkomna uppskriftina og fjölskyldumeðlimir gátu ekki án hennar verið, fóru aðrir í kringum Stellu að biðja um skammta af ljúffenga múslíinu. Hún ákvað þá að gefa því heiti en múslíið heitir „Granóla by Stella“ og hefur slegið í gegn á mörgum heimilum en Stella heldur nú uppi Instagram-reikningi þar sem hægt er að senda inn fyrirspurnir. „Granóla by Stella er stökkt, gullin brúnt, sætt og inniheldur einungis haframjöl, hnetur, fræ, kókosflögur, kanil og lífrænt agave síróp. Þetta er eins og sælgæti sem þú færð ekki samviskubit yfir þar sem öll innihaldsefnin eru heilsusamleg. Margir hafa sagt að þetta sé besta granóla sem þeir hafa smakkað,“ segir Stella.
Hún segir drauminn vera að votta framleiðsluna á Granóla by Stella og selja í verslunum eða til fyrirtækja. Aðspurð hvað hefur komið helst á óvart í ferlinu segir hún: „Það hafa nokkrir verið efins að smakka granólað þegar þeir heyra að það sé hollt en það hefur komið þeim á óvart hversu bragðgott það sé. Ég hvet fólk bara til þess að smakka áður en það dæmir.“