RÚV gerir grín-innrás í Reykjanesbæ
Fjölmennt kvikmyndatökulið frá RÚV hefur verið í Reykjanesbæ síðustu daga við tökur á nýrri grínþáttaröð sem verður á dagskrá RÚV í vetur.
Þættirnir heita Kexverksmiðjan og eru höfundar grínsins þau Gísli Rúnar Jónsson og Carola Ida Köhler, sem m.a. er þekkt fyrir fræga símahrekki á Bylgjunni í þættinum Tveir með öllu. Framleiðandi þáttanna er Gunnlaugur Helgason, Gulli byggir.
Tökuliðið og leikarastóðið hefur síðustu daga verið við upptökur á Ásbrú en gær og í morgun hafa tökur farið fram m.a. á veitingahúsinu Ránni við Hafnargötu.
Meðfylgjandi myndir voru teknar á Ásbrú þar sem unnið var að tökum á atriði í eldhúsi í einu af fjölmörgum húsum sem standa ónotuð. Ef allir þættir verða eins og þetta eina atriði sem blaðamaður VF fylgdist með, þá lofar framtíðin góðu.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson