Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Rusl úr sjónum dreifðist yfir lóðina
Hluti af ruslinu sem fulltrúar frá bænum skófluðu af lóðinni umhverfis húsið.
Þriðjudagur 7. janúar 2014 kl. 13:04

Rusl úr sjónum dreifðist yfir lóðina

„Aðkoman var rosaleg. Hér voru klósettsetur og alls kyns drasl sem hafði skolast yfir varnargarðinn, upp á land í mesta hamaganginum og dreifðist um lóðina umhverfis húsið,“ segir Kristmundur Hákonarson, eigandi Matvæladreifingar í Kothúsum í Garði. Hann segir einhvern mesta sjógang í manna minnum hafa verið í Garði aðfararnótt síðastliðins föstudags.

„Allt hélst í hendur. Það var flóð, há ölduhæð og mikill vindur úr norðri,“ segir Kristmundur, sem flutti fyrirtækið sitt frá Húsavík og út í Garð fyrir sjö árum. Jónína Guðmundsdóttir, starfsmaður Matvæladreifingar, sagði að þegar hún hefði ekið að húsinu á föstudagsmorgun hefði komið væta úr lofti sem hún skildi ekki í því himininn var heiður. „Þá var það bara sjórinn sem skvettist yfir húsið,“ segir hún.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þau hjón tóku myndir innan úr verkstæði hússins, þar sem allt var á floti, á meðan enn var dimmt. Þau höfðu fljótt samband við skrifstofu Gerðahrepps sem sendi starfsmenn og tæki til að aðstoða þau við að skófla sjógengna draslinu af lóðinni eða urða það á staðnum. „Þeir voru svo snöggir að þessu. Komu bara strax í birtingu,“ segir Kristmundur ánægður.

Fréttamaður Víkurfrétta tók myndir af ummerkjum og því sem enn sást í eftir að starfsmenn bæjarins höfðu unnið sitt starf.

Aðkoman inni á verkstæðinu áður en tekið var til hendinni og allt hreinsað.

Brot af því sem barst á land.

Kristmundur við fyrirtæki sitt.

VF/Olga Björt