Rusl úr sjónum dreifðist yfir lóðina
„Aðkoman var rosaleg. Hér voru klósettsetur og alls kyns drasl sem hafði skolast yfir varnargarðinn, upp á land í mesta hamaganginum og dreifðist um lóðina umhverfis húsið,“ segir Kristmundur Hákonarson, eigandi Matvæladreifingar í Kothúsum í Garði. Hann segir einhvern mesta sjógang í manna minnum hafa verið í Garði aðfararnótt síðastliðins föstudags.
„Allt hélst í hendur. Það var flóð, há ölduhæð og mikill vindur úr norðri,“ segir Kristmundur, sem flutti fyrirtækið sitt frá Húsavík og út í Garð fyrir sjö árum. Jónína Guðmundsdóttir, starfsmaður Matvæladreifingar, sagði að þegar hún hefði ekið að húsinu á föstudagsmorgun hefði komið væta úr lofti sem hún skildi ekki í því himininn var heiður. „Þá var það bara sjórinn sem skvettist yfir húsið,“ segir hún.
Þau hjón tóku myndir innan úr verkstæði hússins, þar sem allt var á floti, á meðan enn var dimmt. Þau höfðu fljótt samband við skrifstofu Gerðahrepps sem sendi starfsmenn og tæki til að aðstoða þau við að skófla sjógengna draslinu af lóðinni eða urða það á staðnum. „Þeir voru svo snöggir að þessu. Komu bara strax í birtingu,“ segir Kristmundur ánægður.
Fréttamaður Víkurfrétta tók myndir af ummerkjum og því sem enn sást í eftir að starfsmenn bæjarins höfðu unnið sitt starf.
Aðkoman inni á verkstæðinu áður en tekið var til hendinni og allt hreinsað.
Brot af því sem barst á land.
Kristmundur við fyrirtæki sitt.
VF/Olga Björt