Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Rúni Júl hefði orðið sjötugur í dag
  • Rúni Júl hefði orðið sjötugur í dag
Mánudagur 13. apríl 2015 kl. 11:50

Rúni Júl hefði orðið sjötugur í dag

 

Tónlistar- og íþróttagoðið Guðmundur Rúnar Júlíusson fæddist í Keflavík, 13. apríl árið 1945 og hefði því orðið 70 ára í dag. Hann var sonur Júlíusar Eggertssonar múrarameistara og Guðrúnar Stefánsdóttur Bergmann. Rúnar varð kunnur knattspyrnumaður á unglingsárum sínum og lék með Keflavíkurliðinu þar til hann sneri sér að tónlist. Rúnar var bassaleikari í Hljómum sem varð landsþekkt eftir að sveitin kom fram í fyrsta sinn 5. október 1963 í Krossinum í Innri Njarðvík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Rúnar varð fljótlega vinsæll söngvari og tónlistarmaður sem vakti aðdáun hvar sem hann kom. Hann starfaði í Hljómum þar til hann stofnaði Trúbrot með félögum sínum vorið 1969. Þegar Trúbrot hætti 1973 voru Hljómar endurreistir og stuttu seinna kom Lónlí blú bojs fram á sjónarsviðið. Rúnar og Gunnar Þórðarson stofnuðu Hljóma útgáfuna um þessar mundir sem gaf m.a. út plötur Lónlí Blú Bojs.

Margar plötur og hljómsveitir

Rúnar og María Baldursdóttir lífstíðarförunautur hans stofnuðu hljómplötuútgáfuna Geimstein árið 1976, sem er í dag elsta hljómplötuútgáfa landsins með samfellda sögu. Rúnar gerði nokkrar sólóplötur og starfrækti næstu árin hljómsveitina Geimstein. Hann stofnaði Áhöfnina á Halastjörnunni með Gylfa Ægissyni 1980 en starfrækti lengst af Hljómsveit Rúnars Júlíussonar, sem hét undir það síðasta Rokksveit Rúnars Júlíussonar. Hann stofnaði GCD ásamt Bubba Morthens 1991. Sú hljómsveit gaf út þrjár plötur sem nutu mjög mikilla vinsælda.

Félagar Rúnars á einum af útgáfutónleikum Geimsteins.  

Upptökuheimilið Geimsteinn

Árið 1982 settu Rúnar og María á laggirnar hljóðver á heimili sínu Skólavegi 12 í Keflavík. Það nefndist í daglegu tali Upptökuheimilið Geimsteinn. Rúnar starfrækti hljóðverið og útgáfufyrirtækið til hinsta dags. Hann gaf út um 250 hljómplötur með fjölda listamanna. Þar á meðal má nefna hljómsveitina Geimstein, Áhöfnina á Halastjörnunni, Maríu Baldursdóttur, Bjartmar Guðlaugsson, Þóri Baldursson, Deep Jimi and the Zep Creams, Hjálma og Baggalút. Einnig hafa margir fleiri þekktir tónlistarmenn stigið þar sín fyrstu skref, s.s. Of Monsters and Men, Valdimar og Klassart. 

Hafði aldrei snert bassa

Sú saga er löngu orðin fræg að Gunnar Þórðarson vantaði sárlega bassaleikara þegar stofna átti Hljóma. Hann leitaði þá til Rúnars, sem aldrei hafði snert bassa á ævinni en var farinn að æfa á fullu áður en vika var liðin, enda vissi Gunnar að drengurinn var með afbrigðum músíkalskur. Síðar hefur reyndar komið í ljós að Rúnar er talinn meðal bestu bassaleikara landsins. Þá er sagt að Rúnar hafi ekkert sofið þrjú til fjögur fyrstu árin sem hann var í Hljómum. Hljómsveitin þeystist um allt land og spilaði á hverju kvöldi, drengurinn hafði verið valinn í landsliðið í knattspyrnu og var auk þess að smíða eigið einbýlishús og það er engin smásmíði. Þrátt fyrir allt puðið sáust aldrei þreytumerki á Rúnari. Hann var allra manna fjörugastur á sviði og átti það til að sveifla sér upp á hátalarabox og láta öllum illum látum meðan hann spilaði og söng. Í hjáverkum samdi hann lög og texta sem voru uppfullir að lífsgleði og jákvæðni. 

Árið 1996 kom í ljós að Rúnar fæddist með hjartagalla og þurfti að gangast undir erfiða aðgerð, en hann reis tvíefldur úr þeirri raun. Hann lést þann 5. desember 2008 eftir að hafa fengið hjartaáfall þegar hann var að stíga á svið að syngja á árlegri útgáfukynningu Geimsteins. 

Frá minningartónleikunum sl. laugardagskvöld.

Synir Rúnars, Baldur og Júlíus, hafa haldið uppi heiðri og nafni föður síns og verið áberandi í listar- og menningarlífi Reykjanesbæjar. Minningartónleikar voru haldnir sl. laugardag í Stapa í Hljómahöllinni, þar sem ferli Herra Rokksvar  rakinn í máli, myndum og músik undir léttri leiðsögn fjölskyldu Rúnars ásamt einvala liði söngvara og hljóðfæraleikara. Viðburðurinn verður endurtekinn á Græna Hattinum á Akureyri á næstunni.