Rúnar Marvins gefur út bók
Sandgerðingurinn Rúnar Marvinson er fyrir löngu orðinn landsþekktur fyrir matreiðslusnilli sína og í nýrri bók sem var að koma út fyrir jólin fá lesendur að kynnast ýmsum leyndardómum í uppskriftasafni Rúnars.
Bókin heitir Náttúran sér um sína en hún er samstarfsverkefni Rúnars og Áslaugar Snorradóttur ljósmyndara sem myndskreytir gripinn með glæsilegum ljósmyndum.
Í bókinni fara þau um landið og elda úr því sem náttúran gefur af sér.
„Þetta er ekki þessi hefðbunda matreiðslubók með uppskriftum og fallegum matarmyndum. Í henni er svolítill áróður fyrir nægjuseminni og að fólk gefi sér tíma til að pæla í hlutunum. Við erum orðin dálítið vön því að það sé allt gert fyrir okkur,“ sagði Rúnar en við hittum hann innan um allar piparkökustæðurnar í Kaskó þar sem hann sat og áritaði bækur.
Rúnar segist hafa mikinn áhuga á því að halda þessu verkefni áfram, jafnvel með sjónvarpsþáttagerð, því á nógu sé að taka þegar þjóðleg matargerð sé annars vegar. Hægt sé að finna séreinkenni í matargerð í hverjum landshluta allt eftir því hvað náttúran gefur af sér á hverjum stað og margt af þessu sé að falla í gleymsku með nýjum kynslóðum.
„Við erum líka að reka áróður fyrir því að fólk geri meira í því að vinna matinn sinn sjálft eins og gert var áður. Þar með er fólk laust við öll þessi auka- og geymsluefni sem verið er að punda í matinn. Það var munur að vera til áður en við fundum upp bakteríunar, sagði gamall maður og það er sannleikskorn í því“.
VFmynd/elg - Gjörðu svo vel og njóttu vel! Rúnar afhendir áritaðar bækur í Kaskó.