Rúnar Keflavíkurtenór vekur athygli erlendis
Rúnar Guðmundsson tenór úr Keflavík hefur verið á ferð og flugi á árinu og freistað gæfunnar en smíðað þess á milli í Noregi.
Rúnar söng nýlega á tónleikum í New York þar sem vinningshafar í alþjóðlegri söngarakeppni komu fram og áður en Rúnar tróð upp hafði hann samband við stóra umboðsskrifstofu óperusöngvara sem lýsti áhuga á að koma á tónleikana. Svo fór að umboðsmennirnir mættu ekki og sagði Rúnar að það hefði verið vonbrigði en þegar hann hafi sagt Kristjáni Jóhannssyni, stórsöngvara og kennara sínum þau tíðindi hafi hann sagt honum að það þýddi ekkert að vera að svekkja sig á því. Bara það að skrifstofan hafi sýnt honum áhuga væri gott því það gerðu svona skrifstofur í fæstum tilfellum.
„Ég var nú ekki alveg til í að kaupa það og sendi þeim línu og video frá tónleikunum þar sem ég kom fram og viti menn. Ég fékk svar. Þeir voru mjög ánægðir með minn söng og þeir ætla að finna tækifæri til að hitta mig,“ sagði Rúnar í stuttu spjalli við VF frá Noregi.
Ekki slæm tíðindi fyrir Keflavíkurtenórinn að ein af virtustu umboðsskrifstofum í heimi vilja skoða hann. Flestir vita að það er erfið leið að komast í framlínuna í þessum geira. „Kristján Jóhannsson óskaði mér til hamingju og sagði þetta stórt skref hjá mér og nú væri bara að krossleggja fingur,“ sagði Rúnar.
Rúnar söng á jólatónleikum með Kristjáni Jóhannsyni í Keflavíkurkirkju í fyrra fyrir fullu húsi og aftur í Stapa nokkrum mánuðum síðar. Þeir félagar verða aftur á ferðinni á jólatónleikum Kristjáns Jóhannssonar og félaga 19. des. í Stapanum. Þar munu auk þeirra tveggja Suðurnesjabassinn Jóhann Smári Sævarsson og Kór Keflavíkurkirkju syngja. Kristján hefur sagt að Rúnar hafi mikla hæfileika og í vetur þegar hann söng með Jóhanni Smára sagðist hann ekkert skilja af hverju Jóhann væri ekki í útlöndum. „Einn besti bassi í heiminum,“ sagði Kristján.