Rotarýklúbbur Keflavíkur styður heimagerða hönnun
Veita Mýr Design viðurkenningu
Rotarýklúbbur Keflavíkur afhenti nýlega Helgu Björgu Steinþórsdóttur fatahönnuði viðurkenningu úr starfsgreinasjóði sínum Suður með sjó. Sjóðnum er ætlað að styrkja þá er með starfi að iðngrein sinni sýna frumkvæði og metnað til uppbyggingar atvinnu á Suðurnesjum.
Helga hefur til fjölda ára starfað sjálfstætt við iðn sína, fatahönnun og fatasaum er hún lærði við Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Hún hefur sýnt hönnun sína á sýningum á Íslandi, Austurríki, Lúxemborg og í Þýskalandi, þar sem hún hefur kynnt verk sín og um leið leitt athyglina að Suðurnesjum eftir því sem kostur hefur verið.
Fyrirtæki Helgu, Mýr Design hefur haft vinnustofu í Eldey frumkvöðlasetri á Ásbrú síðan 2011 og haft umsjón með og sýnt á Heklugosi síðan þá undir merkjum Mýr Design, auk virkrar þátttöku í sýningum tengdum Ljósanótt. Helga hefur haft það að leiðaljósi að virkja þann samtakamátt er einkennir þá frumkvöðla er starfa á svæðinu og dregið athyglina að þeim möguleikum er í hugvitinu býr. Með jákvæðu og kærleiksríku viðhorfi sínu til þess samfélags hér býr hefur hún í gegnum iðn sína styrkt stoðir frumkvöðlasamfélagsins á Suðurnesjum.
Helga í vinnuaðstöðu sinni í Eldey á Ásbrú.